Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 104:24-34

24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.

25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.

26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.

27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.

29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.

30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.

31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,

32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.

33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.

34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.

Sálmarnir 104:35

35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.

Fyrsta bók Móse 11:1-9

11 Öll jörðin hafði eitt tungumál og ein og sömu orð.

Og svo bar við, er þeir fóru stað úr stað í austurlöndum, að þeir fundu láglendi í Sínearlandi og settust þar að.

Og þeir sögðu hver við annan: "Gott og vel, vér skulum hnoða tigulsteina og herða í eldi." Og þeir notuðu tigulsteina í stað grjóts og jarðbik í stað kalks.

Og þeir sögðu: "Gott og vel, vér skulum byggja oss borg og turn, sem nái til himins, og gjörum oss minnismerki, svo að vér tvístrumst ekki um alla jörðina."

Þá steig Drottinn niður til þess að sjá borgina og turninn, sem mannanna synir voru að byggja.

Og Drottinn mælti: "Sjá, þeir eru ein þjóð og hafa allir sama tungumál, og þetta er hið fyrsta fyrirtæki þeirra. Og nú mun þeim ekkert ófært verða, sem þeir taka sér fyrir hendur að gjöra.

Gott og vel, stígum niður og ruglum þar tungumál þeirra, svo að enginn skilji framar annars mál."

Og Drottinn tvístraði þeim þaðan út um alla jörðina, svo að þeir urðu af að láta að byggja borgina.

Þess vegna heitir hún Babel, því að þar ruglaði Drottinn tungumál allrar jarðarinnar, og þaðan tvístraði hann þeim um alla jörðina.

Fyrra bréf Páls til Korin 12:12-27

12 Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur.

13 Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka.

14 Því að líkaminn er ekki einn limur, heldur margir.

15 Ef fóturinn segði: "Fyrst ég er ekki hönd, heyri ég ekki líkamanum til," þá er hann ekki fyrir það líkamanum óháður.

16 Og ef eyrað segði: "Fyrst ég er ekki auga, heyri ég ekki líkamanum til," þá er það ekki þar fyrir líkamanum óháð.

17 Ef allur líkaminn væri auga, hvar væri þá heyrnin? Ef hann væri allur heyrn, hvar væri þá ilmanin?

18 En nú hefur Guð sett hvern einstakan lim á líkamann eins og honum þóknaðist.

19 Ef allir limirnir væru einn limur, hvar væri þá líkaminn?

20 En nú eru limirnir margir, en líkaminn einn.

21 Augað getur ekki sagt við höndina: "Ég þarfnast þín ekki!" né heldur höfuðið við fæturna: "Ég þarfnast ykkar ekki!"

22 Nei, miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir, sem virðast vera í veikbyggðara lagi.

23 Og þeim, sem oss virðast vera í óvirðulegra lagi á líkamanum, þeim veitum vér því meiri sæmd, og þeim, sem vér blygðumst vor fyrir, sýnum vér því meiri blygðunarsemi.

24 Þess þarfnast hinir ásjálegu limir vorir ekki. En Guð setti líkamann svo saman, að hann gaf þeim, sem síðri var, því meiri sæmd,

25 til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum, heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum.

26 Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum, eða einn limur er í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum.

27 Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society