Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 33:12-22

12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.

13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,

14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,

15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.

16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.

17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.

18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.

19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.

20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.

21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.

22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.

Jobsbók 37:1-13

37 Já, yfir þessu titrar hjarta mitt og hrökkur upp úr stað sínum.

Heyrið, heyrið drunur raddar hans og hvininn, sem út fer af munni hans.

Undir öllum himninum lætur hann eldinguna þjóta og leiftur sitt út á jaðra jarðarinnar.

Á eftir því kemur öskrandi skrugga, hann þrumar með sinni tignarlegu raust og heldur eldingunum ekki aftur, þá er raust hans lætur til sín heyra.

Guð þrumar undursamlega með raust sinni, hann sem gjörir mikla hluti, er vér eigi skiljum.

Því að hann segir við snjóinn: "Fall þú á jörðina," og eins við hellirigninguna og hennar dynjandi helliskúrir.

Hann innsiglar hönd sérhvers manns, til þess að allir menn viðurkenni verk hans.

Þá fara villidýrin í fylgsni sín og hvílast í bælum sínum.

Stormurinn kemur úr forðabúrinu og kuldinn af norðanvindunum.

10 Fyrir andgust Guðs verður ísinn til, og víð vötnin eru lögð í læðing.

11 Hann hleður skýin vætu, tvístrar leifturskýi sínu víðsvegar.

12 En það snýst í allar áttir, eftir því sem hann leiðir það, til þess að það framkvæmi allt það er hann býður því, á yfirborði allrar jarðarinnar.

13 Hann lætur því ljósta niður, hvort sem það er til hirtingar eða til að vökva jörðina eða til að blessa hana.

Fyrra bréf Páls til Korin 15:50-57

50 En það segi ég, bræður, að hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki, eigi erfir heldur hið forgengilega óforgengileikann.

51 Sjá, ég segi yður leyndardóm: Vér munum ekki allir sofna, en allir munum vér umbreytast

52 í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast.

53 Þetta forgengilega á að íklæðast óforgengileikanum og þetta dauðlega að íklæðast ódauðleikanum.

54 En þegar hið forgengilega íklæðist óforgengileikanum og hið dauðlega ódauðleikanum, þá mun rætast orð það, sem ritað er: Dauðinn er uppsvelgdur í sigur.

55 Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?

56 En syndin er broddur dauðans og lögmálið afl syndarinnar.

57 Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist!

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society