Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.
2 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"
3 En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.
4 Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.
5 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
6 þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.
7 Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.
8 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.
9 En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.
12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,
13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.
14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.
15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.
16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.
17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,
18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.
5 Drottinn talaði við Móse og sagði:
6 "Skil þú levítana úr Ísraelsmönnum og hreinsa þá.
7 Og þetta skalt þú við þá gjöra til þess að hreinsa þá: Stökk þú á þá syndhreinsunarvatni, og þeir skulu láta rakhníf ganga yfir allan líkama sinn og þvo klæði sín og hreinsa sig.
8 Og þeir skulu taka ungneyti og matfórn, er því fylgir, fínt mjöl olíublandað, og annað ungneyti skalt þú taka í syndafórn.
9 Síðan skalt þú leiða levítana fram fyrir samfundatjaldið og safna saman öllum söfnuði Ísraelsmanna.
10 Og þú skalt leiða levítana fram fyrir Drottin, og Ísraelsmenn skulu leggja hendur sínar yfir þá.
11 Og Aron skal helga levítana sem fórn frammi fyrir Drottni af hendi Ísraelsmanna, og skulu þeir takast á hendur að gegna þjónustu Drottins.
12 En levítarnir skulu leggja hendur sínar á höfuð nautanna. Öðru skal fórna í syndafórn og hinu í brennifórn Drottni til handa til þess að friðþægja fyrir levítana.
13 Og þú skalt leiða þá fram fyrir Aron og fram fyrir sonu hans og helga þá sem fórn Drottni til handa.
14 Og þú skalt greina þá frá Ísraelsmönnum, svo að þeir heyri mér.
15 Því næst skulu levítarnir ganga inn til þess að gegna þjónustu við samfundatjaldið, og þú skalt hreinsa þá og helga þá sem fórn,
16 því að þeir eru gefnir mér til fullkominnar eignar af Ísraelsmönnum. Í stað alls þess er opnar móðurlíf, í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna hefi ég tekið þá mér til eignar,
17 því að ég á alla frumburði meðal Ísraelsmanna, bæði menn og skepnur. Á þeim degi, er ég laust alla frumburði í Egyptalandi, helgaði ég mér þá.
18 Og ég tók levítana í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna.
19 Og ég gaf þá Aroni og sonum hans til eignar af Ísraelsmönnum, til þess að þeir gegni þjónustu fyrir Ísraelsmenn í samfundatjaldinu og til þess að þeir friðþægi fyrir Ísraelsmenn, svo að eigi komi plága yfir Ísraelsmenn, þá er Ísraelsmenn koma nærri helgidóminum."
20 Móse og Aron og allur söfnuður Ísraelsmanna gjörði svo við levítana. Gjörðu Ísraelsmenn að öllu leyti svo við þá sem Drottinn hafði boðið Móse um þá.
21 Levítarnir syndhreinsuðu sig og þvoðu klæði sín, og Aron helgaði þá sem fórn frammi fyrir Drottni, og Aron friðþægði fyrir þá til þess að hreinsa þá.
22 Gengu levítarnir því næst inn til þess að gegna þjónustu sinni í samfundatjaldinu fyrir augliti Arons og fyrir augliti sona hans. Gjörðu þeir svo við levítana sem Drottinn hafði boðið Móse um þá.
1 Frá Páli, þjóni Guðs, en postula Jesú Krists til að efla trú Guðs útvöldu og þekkingu á sannleikanum, sem leiðir til guðhræðslu
2 í von um eilíft líf. Því hefur Guð, sá er ekki lýgur, heitið frá eilífum tíðum,
3 en opinberað á settum tíma. Þetta orð hans var mér trúað fyrir að prédika eftir skipun Guðs, frelsara vors.
4 Til Títusar, skilgetins sonar míns í sameiginlegri trú. Náð og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, frelsara vorum.
5 Ég lét þig eftir á Krít, til þess að þú færðir í lag það, sem ógjört var, og skipaðir öldunga í hverri borg, svo sem ég lagði fyrir þig.
6 Öldungur á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, á að eiga trúuð börn, sem eigi eru sökuð um gjálífi eða óhlýðni.
7 Því að biskup á að vera óaðfinnanlegur, þar sem hann er ráðsmaður Guðs. Hann á ekki að vera sjálfbirgingur, ekki bráður, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, ekki sólginn í ljótan gróða.
8 Hann sé gestrisinn, góðgjarn, hóglátur, réttlátur, heilagur og hafi stjórn á sjálfum sér.
9 Hann á að vera maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla.
by Icelandic Bible Society