Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
44 Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð, kom heilagur andi yfir alla þá, er orðið heyrðu.
45 Hinir trúuðu Gyðingar, sem komið höfðu með Pétri, urðu furðu lostnir, að heilögum anda, gjöf Guðs, skyldi einnig úthellt yfir heiðingjana,
46 því þeir heyrðu þá tala tungum og mikla Guð.
47 Þá mælti Pétur: "Hver getur varnað þess, að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem vér."
48 Og hann bauð, að þeir skyldu skírðir verða í nafni Jesú Krists. Síðan báðu þeir hann að standa við í nokkra daga.
98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.
2 Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.
3 Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.
4 Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.
5 Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,
6 með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.
7 Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.
8 Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman
9 fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.
5 Hver sem trúir, að Jesús sé Kristur, er af Guði fæddur, og hver sem elskar föðurinn elskar einnig barn hans.
2 Að vér elskum Guðs börn þekkjum vér af því, að vér elskum Guð og breytum eftir boðorðum hans.
3 Því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung,
4 því að allt, sem af Guði er fætt, sigrar heiminn, og trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.
5 Hver er sá, sem sigrar heiminn, nema sá sem trúir, að Jesús sé sonur Guðs?
6 Hann er sá sem kom með vatni og blóði, Jesús Kristur. Ekki með vatninu einungis, heldur með vatninu og með blóðinu. Og andinn er sá sem vitnar, því að andinn er sannleikurinn.
9 Ég hef elskað yður, eins og faðirinn hefur elskað mig. Verið stöðugir í elsku minni.
10 Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.
11 Þetta hef ég talað til yðar, til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn.
12 Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.
13 Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.
14 Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður.
15 Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum.
16 Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni.
17 Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan.
by Icelandic Bible Society