Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
2 Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.
3 Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.
4 Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.
5 Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.
6 Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
7 því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!
8 Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,
9 þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.
10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."
11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."
11 Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn til Davíðs í Hebron og sögðu: "Sjá, vér erum hold þitt og bein!
2 Þegar um langa hríð, meðan Sál var konungur, hefir þú verið fyrir Ísrael, bæði þegar hann lagði af stað í stríð og þegar hann kom heim. Auk þess hefir Drottinn, Guð þinn, við þig sagt: ,Þú skalt vera hirðir þjóðar minnar Ísraels, og þú skalt vera höfðingi yfir þjóð minni Ísrael!"`
3 Þá komu allir öldungar Ísraels til konungsins í Hebron, og Davíð gjörði við þá sáttmála í Hebron, frammi fyrir augliti Drottins, og þeir smurðu Davíð til konungs yfir Ísrael eftir orði Drottins fyrir munn Samúels.
4 Og Davíð og allur Ísrael fór til Jerúsalem, það er Jebús, og þar voru Jebúsítar landsbúar.
5 Þá sögðu Jebúsbúar við Davíð: "Þú munt eigi komast hér inn!" En Davíð tók vígið Síon, það er Davíðsborg.
6 Þá mælti Davíð: "Hver sá, er fyrstur vinnur sigur á Jebúsítum, skal verða höfuðsmaður og herforingi!" Gekk þá fyrstur upp Jóab Serújuson og varð höfuðsmaður.
7 Því næst settist Davíð að í víginu, fyrir því nefndu menn það Davíðsborg.
8 Og hann víggirti borgina allt í kring, frá Milló og alla leið umhverfis, en aðra hluta borgarinnar hressti Jóab við.
9 Og Davíð efldist meir og meir, og Drottinn allsherjar var með honum.
13 Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: "Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir?"
14 Og ég sagði við hann: "Herra minn, þú veist það." Hann sagði við mig: "Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.
15 Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá.
16 Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti.
17 Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra."
by Icelandic Bible Society