Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
2 Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.
3 Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.
4 Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.
5 Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.
6 Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
8 Þá sá Jakob sonu Jósefs og mælti: "Hverjir eru þessir?"
9 Og Jósef sagði við föður sinn: "Það eru synir mínir, sem Guð hefir gefið mér hér." Og hann mælti: "Leiddu þá til mín, að ég blessi þá."
10 En Ísrael var orðinn sjóndapur af elli og sá ekki. Og Jósef leiddi þá til hans, og hann kyssti þá og faðmaði þá.
11 Og Ísrael sagði við Jósef: "Ég hafði eigi búist við að sjá þig framar, og nú hefir Guð meira að segja látið mig sjá afkvæmi þitt."
12 Og Jósef færði þá frá knjám hans og hneigði ásjónu sína til jarðar.
13 Jósef tók þá báða, Efraím sér við hægri hönd, svo að hann stóð Ísrael til vinstri handar, og Manasse sér við vinstri hönd, svo að hann stóð Ísrael til hægri handar, og leiddi þá til hans.
14 En Ísrael rétti fram hægri hönd sína og lagði á höfuð Efraím, þótt hann væri yngri, og vinstri hönd sína á höfuð Manasse. Hann lagði hendur sínar í kross, því að Manasse var hinn frumgetni.
15 Og hann blessaði Jósef og sagði: "Sá Guð, fyrir hvers augliti feður mínir Abraham og Ísak gengu, sá Guð, sem hefir varðveitt mig frá barnæsku allt fram á þennan dag,
16 sá engill, sem hefir frelsað mig frá öllu illu, hann blessi sveinana, og þeir beri nafn mitt og nafn feðra minna Abrahams og Ísaks, og afsprengi þeirra verði stórmikið í landinu."
17 En er Jósef sá, að faðir hans lagði hægri hönd sína á höfuð Efraím, mislíkaði honum það og tók um höndina á föður sínum til þess að færa hana af höfði Efraíms yfir á höfuð Manasse.
18 Og Jósef sagði við föður sinn: "Eigi svo, faðir minn, því að þessi er hinn frumgetni. Legg hægri hönd þína á höfuð honum."
19 En faðir hans færðist undan því og sagði: "Ég veit það, sonur minn, ég veit það. Einnig hann mun verða að þjóð og einnig hann mun mikill verða, en þó mun yngri bróðir hans verða honum meiri, og afsprengi hans mun verða fjöldi þjóða."
30 Postularnir komu nú aftur til Jesú og sögðu honum frá öllu því, er þeir höfðu gjört og kennt.
31 Hann sagði við þá: "Komið þér nú á óbyggðan stað, svo að vér séum einir saman, og hvílist um stund." En fjöldi fólks var stöðugt að koma og fara, svo að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að matast.
32 Og þeir fóru á bátnum einir saman á óbyggðan stað.
33 Menn sáu þá fara, og margir þekktu þá, og nú streymdi fólk þangað gangandi úr öllum borgunum og varð á undan þeim.
34 Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.
by Icelandic Bible Society