Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 150

150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!

Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!

Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!

Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!

Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!

Jeremía 30:1-11

30 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:

Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Skrifa þú öll þau orð, er ég hefi til þín talað, í bók.

Því sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun snúa við hag lýðs míns, Ísraels og Júda _ segir Drottinn _ og láta þá hverfa aftur til þess lands, sem ég gaf feðrum þeirra, og þeir skulu taka það til eignar.

Þessi eru orðin, sem Drottinn talaði um Ísrael og Júda.

Svo segir Drottinn: Hræðsluóp heyrum vér, ótti er á ferðum, en engin heill!

Spyrjið um og gætið að, hvort karlmaður ali barn! Hvers vegna sé ég þá alla menn með hendur á lendum, líkt og jóðsjúk kona væri, og hvers vegna eru öll andlit orðin nábleik?

Vei, mikill er sá dagur, hann á ekki sinn líka og angistartími er það fyrir Jakob, en hann mun frelsast frá því.

Á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar _ mun ég sundur brjóta okið af hálsi hans og slíta af honum böndin, og útlendir menn skulu ekki lengur halda honum í þrældómi.

Þeir skulu þjóna Drottni, Guði sínum, og Davíð, konungi sínum, er ég mun uppvekja þeim.

10 Óttast þú ekki, þjónn minn Jakob _ segir Drottinn _ og hræðst þú ekki, Ísrael, því að ég frelsa þig úr fjarlægu landi og leysi niðja þína úr landinu, þar sem þeir eru herleiddir, til þess að Jakob hverfi heim aftur og njóti hvíldar og búi óhultur, án þess nokkur hræði hann.

11 Ég er með þér _ segir Drottinn _ til þess að frelsa þig. Ég vil gjöreyða öllum þeim þjóðum, sem ég hefi tvístrað þér á meðal. Þér einni vil ég ekki gjöreyða, heldur vil ég hirta þig í hófi, en ég vil ekki láta þér með öllu óhegnt.

Fyrsta bréf Jóhannesar 3:10-16

10 Af þessu eru augljós börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til.

11 Því að þetta er sá boðskapur, sem þér hafið heyrt frá upphafi: Vér eigum að elska hver annan.

12 Ekki vera eins og Kain, sem heyrði hinum vonda til og myrti bróður sinn. Og af hverju myrti hann hann? Af því að verk hans voru vond, en verk bróður hans réttlát.

13 Undrist ekki, bræður, þótt heimurinn hati yður.

14 Vér vitum, að vér erum komnir yfir frá dauðanum til lífsins, af því að vér elskum bræður vora. Sá sem ekki elskar er áfram í dauðanum.

15 Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari og þér vitið, að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér.

16 Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society