Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
133 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman,
2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans,
3 eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.
2 Á öðru ríkisári Nebúkadnesars dreymdi Nebúkadnesar draum, og varð honum órótt í skapi og mátti eigi sofa.
2 Þá bauð konungur að kalla til sín spásagnamenn og særingamenn og galdramenn og Kaldea, að þeir segðu konungi, hvað hann hefði dreymt, og þeir komu og gengu fyrir konung.
3 Þá sagði konungur við þá: "Mig hefir dreymt draum og mér er órótt í skapi, uns ég fæ að vita drauminn."
4 Þá sögðu Kaldearnir við konunginn á arameísku: "Konungurinn lifi eilíflega! Seg þjónum þínum drauminn, og munum vér þá segja þýðing hans."
5 Konungur svaraði og sagði við Kaldea: "Ásetningur minn er óhagganlegur: Ef þér segið mér ekki drauminn og þýðing hans, skuluð þér verða höggnir sundur og hús yðar gjörð að sorphaug.
6 En ef þér segið mér drauminn og þýðing hans, munuð þér af mér þiggja margs konar gjafir og mikla sæmd. Segið mér því drauminn og þýðing hans!"
7 Þá svöruðu þeir aftur og sögðu: "Konungurinn segi þjónum sínum drauminn, og þá skulum vér segja, hvað hann þýðir."
8 Konungur svaraði og sagði: "Ég veit með vissu, að þér ætlið að leita yður frests, þar eð þér sjáið að ásetningur minn er óhagganlegur.
9 En ef þér segið mér ekki drauminn, þá bíður yðar dómur, sem ekki verður nema á einn veg. Þér hafið komið yður saman um að fara með lygatal og skaðsemdar frammi fyrir mér, þar til er tímarnir breytast. Segið mér því drauminn, svo að ég fái skilið, að þér megið einnig segja mér þýðing hans."
10 Kaldearnir svöruðu konungi og sögðu: "Enginn er sá maður í heimi, er sagt geti það, er konungurinn mælist til, né heldur hefir nokkur mikill og voldugur konungur krafist slíks af nokkrum spásagnamanni, særingamanni eða Kaldea.
11 Því að það er torvelt, sem konungurinn heimtar, og enginn getur kunngjört konunginum það nema guðirnir einir, en bústaður þeirra er ekki hjá dauðlegum mönnum."
12 Af þessu varð konungur gramur og mjög reiður og bauð að taka af lífi alla vitringa í Babýlon.
13 Gekk þá sú skipun út, að lífláta skyldi vitringana, og var leitað að þeim Daníel og félögum hans til að lífláta þá.
14 Þá sneri Daníel sér með viturleik og skynsemd til Arjóks, lífvarðarforingja konungs, sem út var genginn til þess að lífláta vitringana í Babýlon.
15 Hann tók til máls og sagði við Arjók valdsmann konungs: "Hví er skipun konungs svo hörð?" Arjók skýrði þá Daníel frá málavöxtum.
16 Og Daníel gekk upp til konungs og bað hann gefa sér frest, að hann mætti kunngjöra konungi þýðinguna.
17 Þá gekk Daníel heim til húss síns til þess að segja þeim Hananja, Mísael og Asarja, félögum sínum, frá þessu,
18 og til þess að biðja Guð himinsins líknar um leyndardóm þennan, svo að Daníel og félagar hans yrðu ekki líflátnir með hinum vitringunum í Babýlon.
19 Þá var leyndardómurinn opinberaður Daníel í nætursýn. Þá lofaði Daníel Guð himnanna.
20 Daníel tók til máls og sagði: "Lofað veri nafn Guðs frá eilífð til eilífðar, því að hans er viskan og mátturinn.
21 Hann breytir tímum og tíðum, hann rekur konunga frá völdum og hann setur konunga til valda, hann gefur spekingunum speki og hinum hyggnu hyggindi.
22 Hann opinberar hina dýpstu og huldustu leyndardóma, hann veit, hvað í myrkrinu gjörist, og ljósið býr hjá honum.
23 Ég þakka þér, Guð feðra minna, og vegsama þig fyrir það, að þú hefir gefið mér visku og mátt og nú látið mig vita það, er vér báðum þig um, því að þú hefir opinberað oss það, er konungur vildi vita."
23 Er þeim hafði verið sleppt, fóru þeir til félaga sinna og greindu þeim frá öllu því, sem æðstu prestarnir og öldungarnir höfðu við þá talað.
24 Þegar þeir heyrðu það, hófu þeir einum huga raust sína til Guðs og sögðu: "Herra, þú sem gjörðir himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er,
25 þú, sem lést heilagan anda mæla af munni Davíðs, föður vors, þjóns þíns: Hví geisuðu heiðingjarnir, og hví hugðu lýðirnir á hégómleg ráð?
26 Konungar jarðarinnar risu upp, og höfðingjarnir söfnuðust saman gegn Drottni og gegn hans Smurða.
27 Því að sannarlega söfnuðust saman í borg þessari gegn hinum heilaga þjóni þínum, Jesú, er þú smurðir, þeir Heródes og Pontíus Pílatus ásamt heiðingjunum og lýðum Ísraels
28 til að gjöra allt það, er hönd þín og ráð hafði fyrirhugað, að verða skyldi.
29 Og nú, Drottinn, lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.
30 Rétt þú út hönd þína til að lækna og lát tákn og undur verða fyrir nafn þíns heilaga þjóns, Jesú."
31 Þegar þeir höfðu beðist fyrir, hrærðist staðurinn, þar sem þeir voru saman komnir, og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung.
by Icelandic Bible Society