Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 118:1-2

118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Sálmarnir 118:14-24

14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.

15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,

16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.

17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.

18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.

19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.

20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.

21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.

22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.

23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.

24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.

Ljóðaljóðin 3

Í hvílu minni um nótt leitaði ég hans sem sál mín elskar, ég leitaði hans, en fann hann ekki.

Ég skal fara á fætur og ganga um borgina, um strætin og torgin. Ég skal leita hans, sem sál mín elskar! Ég leitaði hans, en fann hann ekki.

Verðirnir, sem ganga um borgina, hittu mig. "Hafið þér séð þann sem sál mín elskar?"

Óðara en ég var frá þeim gengin, fann ég þann sem sál mín elskar. Ég þreif í hann og sleppi honum ekki, fyrr en ég hefi leitt hann í hús móður minnar og í herbergi hennar er mig ól.

Ég særi yður, Jerúsalemdætur, við skógargeiturnar eða við hindirnar í haganum: Vekið ekki, vekið ekki elskuna, fyrr en hún sjálf vill.

Hvað er það, sem kemur úr heiðinni eins og reykjarsúlur, angandi af myrru og reykelsi, af alls konar kaupmannskryddi?

Það er burðarrekkja Salómons, sextíu kappar kringum hana af köppum Ísraels.

Allir með sverð í hendi, vanir hernaði, hver og einn með sverð við lend vegna næturóttans.

Burðarstól lét Salómon konungur gjöra sér úr viði frá Líbanon.

10 Stólpa hans lét hann gjöra af silfri, bakið úr gulli, sætið úr purpuradúk, lagt hægindum að innan af elsku Jerúsalemdætra.

11 Gangið út, Síonardætur, og horfið á Salómon konung, á sveiginn sem móðir hans hefir krýnt hann á brúðkaupsdegi hans og á gleðidegi hjarta hans.

Markúsarguðspjall 16:1-8

16 Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann.

Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni.

Þær sögðu sín á milli: "Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?"

En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór.

Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust.

En hann sagði við þær: "Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann.

En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: ,Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður`."

Þær fóru út og flýðu frá gröfinni, því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu, því þær voru hræddar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society