Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
9 Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.
10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.
11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.
12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.
13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.
14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.
15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.
16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.
8 Lát nú koma fram lýð þann, sem blindur er, þótt hann hafi augu, og þá menn, sem daufir eru, þótt þeir hafi eyru.
9 Lát alla heiðingjana safnast í einn hóp og þjóðirnar koma saman. Hver af þeim getur kunngjört slíkt og látið oss heyra það, er áður er fram komið? Leiði þeir fram votta sína og færi sönnur á mál sitt, svo að menn segi, er þeir heyra það: "Það er satt!"
10 En þér eruð mínir vottar, segir Drottinn, og minn þjónn, sem ég hefi útvalið, til þess að þér skylduð kannast við og trúa mér og skilja, að það er ég einn. Á undan mér hefir enginn guð verið búinn til, og eftir mig mun enginn verða til.
11 Ég, ég er Drottinn, og enginn frelsari er til nema ég.
12 Það var ég, sem boðaði og hjálpaði og kunngjörði, en enginn annar yðar á meðal, og þér eruð vottar mínir _ segir Drottinn. Ég er Guð.
13 Já, enn í dag er ég hinn sami. Enginn getur frelsað af minni hendi. Hver vill gjöra það ógjört, sem ég framkvæmi?
4 En þetta traust höfum vér til Guðs fyrir Krist.
5 Ekki svo, að vér séum sjálfir hæfir og eitthvað komi frá oss sjálfum, heldur er hæfileiki vor frá Guði,
6 sem hefur gjört oss hæfa til að vera þjóna nýs sáttmála, ekki bókstafs, heldur anda. Því að bókstafurinn deyðir, en andinn lífgar.
7 En ef þjónusta dauðans, sem letruð var og höggvin á steina, kom fram í dýrð, svo að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans, sem þó varð að engu,
8 hversu miklu fremur mun þá þjónusta andans koma fram í dýrð?
9 Ef þjónustan, sem sakfellir, var dýrleg, þá er þjónustan, sem réttlætir, enn þá miklu auðugri að dýrð.
10 Í þessu efni verður jafnvel það, sem áður var dýrlegt, ekki dýrlegt í samanburði við hina yfirgnæfandi dýrð.
11 Því að ef það, sem að engu verður, kom fram með dýrð, þá hlýtur miklu fremur hið varanlega að koma fram í dýrð.
by Icelandic Bible Society