Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 51:1-12

51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,

þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.

Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,

því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.

Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.

Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.

Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!

Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.

10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.

11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.

12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.

Habakkuk 3:2-13

Drottinn, ég hefi heyrt boðskap þinn, ég er hræddur. Drottinn, endurnýja verk þitt áður en mörg ár líða, lát það verða kunnugt áður en mörg ár líða. Minnst þú miskunnar í reiðinni.

Guð kemur frá Teman og Hinn heilagi frá Paranfjöllum. (Sela.) Tign hans þekur himininn, og af dýrð hans er jörðin full.

Ljómi birtist eins og sólarljós, geislar stafa út frá hendi hans, og þar er hjúpurinn um mátt hans.

Drepsóttin fer á undan honum, og sýkin fetar í fótspor hans.

Hann gengur fram, og jörðin nötrar, hann lítur upp, og þjóðirnar hrökkva við. Þá molast hin öldnu fjöll sundur, þá sökkva hinar eilífu hæðir niður, hann gengur sama veginn og forðum daga.

Ég sé tjöld Kúsans í nauðum stödd, tjalddúkarnir í Midíanslandi bifast til og frá.

Ert þú, Drottinn, reiður fljótunum, eða beinist bræði þín að þeim? Eða beinist heift þín að hafinu, úr því þú ekur með hesta þína, á sigurvagni þínum?

Ber og nakinn er bogi þinn, þú fyllir örvamæli þinn skeytum, þú klýfur vatnsföll, svo að land kemur fram.

10 Fjöllin sjá þig og skjálfa, steypiregn dynur yfir, hafdjúpið lætur raust sína drynja, réttir hendur sínar hátt upp.

11 Sól og tungl bíða kyrr í híbýlum sínum, fyrir ljósi þinna þjótandi örva, fyrir ljóma þíns leiftrandi spjóts.

12 Í gremi fetar þú yfir jörðina, í reiði þreskir þú þjóðirnar.

13 Þú fer að heiman til þess að frelsa þjóð þína, til þess að hjálpa þínum smurða. Þú brýtur niður mæninn á húsi hins óguðlega, gjörir grundvöllinn beran niður á klöpp.

Jóhannesarguðspjall 12:1-11

12 Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu, þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum.

Þar var honum búinn kvöldverður, og Marta gekk um beina, en Lasarus var einn þeirra, sem að borði sátu með honum.

Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna.

Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann:

"Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?"

Ekki sagði hann þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók það, sem í hana var látið.

Þá sagði Jesús: "Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns.

Fátæka hafið þér ætíð hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt."

Nú komst allur fjöldi Gyðinga að því, að Jesús væri þarna, og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna, heldur og til að sjá Lasarus, sem hann hafði vakið frá dauðum.

10 Þá réðu æðstu prestarnir af að taka einnig Lasarus af lífi,

11 því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society