Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 84

84 Til söngstjórans. Á gittít. Kóraíta-sálmur.

Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna.

Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins, nú fagnar hjarta mitt og hold fyrir hinum lifanda Guði.

Jafnvel fuglinn hefir fundið hús, og svalan á sér hreiður, þar sem hún leggur unga sína: ölturu þín, Drottinn hersveitanna, konungur minn og Guð minn!

Sælir eru þeir, sem búa í húsi þínu, þeir munu ætíð lofa þig. [Sela]

Sælir eru þeir menn, sem finna styrk hjá þér, er þeir hugsa til helgigöngu.

Er þeir fara gegnum táradalinn, umbreyta þeir honum í vatnsríka vin, og haustregnið færir honum blessun.

Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon.

Drottinn, Guð hersveitanna, heyr bæn mína, hlýð til, þú Jakobs Guð. [Sela]

10 Guð, skjöldur vor, sjá og lít á auglit þíns smurða!

11 Því að einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra.

12 Því að Drottinn Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir Drottinn. Hann synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik.

13 Drottinn hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.

Síðari Kroníkubók 29:1-11

29 Hiskía varð konungur, þá er hann var tuttugu og fimm ára gamall og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Abía Sakaríadóttir.

Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, að öllu svo sem gjört hafði Davíð forfaðir hans.

Í fyrsta mánuði á fyrsta ríkisári sínu opnaði hann dyrnar að musteri Drottins, og gjörði við þær.

Síðan lét hann prestana og levítana koma og stefndi þeim saman á auða svæðinu austan til.

Og hann sagði við þá: "Hlýðið á mig, þér levítar! Helgið nú sjálfa yður og helgið musteri Drottins, Guðs feðra yðar, og útrýmið viðurstyggðinni úr helgidóminum.

Því að feður vorir hafa sýnt ótrúmennsku og gjört það, sem illt var í augum Drottins, Guðs vors, og yfirgefið hann. Þeir sneru augliti sínu burt frá bústað Drottins og sneru við honum bakinu.

Þá hafa þeir og læst dyrunum að forsalnum, slökkt á lömpunum, eigi brennt reykelsi og eigi fært Guði Ísraels brennifórn í helgidóminum.

Fyrir því kom reiði Drottins yfir Júda og Jerúsalem, og hann lét þá sæta misþyrmingu og gjörði þá að undri og athlægi, svo sem þér sjáið með eigin augum.

Nú eru þá feður vorir fallnir fyrir sverðseggjum, og synir vorir og dætur og konur eru hernumdar fyrir þetta.

10 Nú hefi ég einsett mér að gjöra sáttmála við Drottin, Guð Ísraels, til þess að hin brennandi reiði hans megi hverfa frá oss.

11 Verið þá eigi skeytingarlausir, synir mínir! Því að yður hefir Drottinn útvalið til þess að standa frammi fyrir sér, til þess að þjóna sér, og til þess að þér skuluð vera þjónustumenn hans og brenna reykelsi honum til handa."

Síðari Kroníkubók 29:16-19

16 Og prestarnir fóru inn í musteri Drottins til þess að hreinsa það, og fóru með allt óhreint, er þeir fundu í musteri Drottins, út í forgarð musteris Drottins. Tóku levítarnir við því til þess að fara með það út í Kídronlæk.

17 Hófu þeir helgunina hinn fyrsta dag hins fyrsta mánaðar, og á áttunda degi mánaðarins voru þeir komnir að forsal Drottins. Helguðu þeir síðan musteri Drottins á átta dögum, og á sextánda degi hins fyrsta mánaðar var verkinu lokið.

18 Gengu þeir þá inn fyrir Hiskía konung og sögðu: "Vér höfum hreinsað allt musteri Drottins og brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, svo og borðið fyrir raðabrauðin og öll áhöld þess.

19 Og öll þau áhöld, er Akas konungur smáði af ótrúmennsku sinni, höfum vér sett fram og helgað. Standa þau nú frammi fyrir altari Drottins."

Bréfið til Hebrea 9:23-28

23 Það var því óhjákvæmilegt, að eftirmyndir þeirra hluta, sem á himnum eru, yrðu hreinsaðar með slíku. En sjálft hið himneska krefst betri fórna en þessara.

24 Því að Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gjörðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna.

25 Og ekki gjörði hann það til þess að frambera sjálfan sig margsinnis, eins og æðsti presturinn gengur inn í hið heilaga á ári hverju með annarra blóð.

26 Þá hefði hann oft þurft að líða frá grundvöllun heims. En nú hefur hann birst í eitt skipti fyrir öll við endi aldanna til að afmá syndina með fórn sinni.

27 Og eins og það liggur fyrir mönnunum eitt sinn að deyja og eftir það að fá sinn dóm,

28 þannig var Kristi fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra, og í annað sinn mun hann birtast, ekki sem syndafórn, heldur til hjálpræðis þeim, er hans bíða.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society