Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 105:1-11

105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!

Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.

Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.

Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.

Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,

þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.

Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.

Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,

sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,

10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,

11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.

Sálmarnir 105:37-45

37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.

38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.

39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.

40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.

41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.

42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn

43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.

44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,

45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.

Fyrsta bók Móse 22:1-19

22 Eftir þessa atburði freistaði Guð Abrahams og mælti til hans: "Abraham!" Hann svaraði: "Hér er ég."

Hann sagði: "Tak þú einkason þinn, sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum þar að brennifórn á einu af fjöllunum, sem ég mun segja þér til."

Abraham var árla á fótum næsta morgun og lagði á asna sinn, og tók með sér tvo sveina sína og Ísak son sinn. Og hann klauf viðinn til brennifórnarinnar, tók sig upp og hélt af stað, þangað sem Guð sagði honum.

Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar.

Þá sagði Abraham við sveina sína: "Bíðið hér hjá asnanum, en við smásveinninn munum ganga þangað til að biðjast fyrir, og komum svo til ykkar aftur."

Og Abraham tók brennifórnarviðinn og lagði syni sínum Ísak á herðar, en tók eldinn og hnífinn sér í hönd. Og svo gengu þeir báðir saman.

Þá mælti Ísak við Abraham föður sinn: "Faðir minn!" Hann svaraði: "Hér er ég, sonur minn!" Hann mælti: "Hér er eldurinn og viðurinn, en hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?"

Og Abraham sagði: "Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnarinnar, sonur minn." Og svo gengu þeir báðir saman.

En er þeir komu þangað, er Guð hafði sagt honum, reisti Abraham þar altari og lagði viðinn á, og batt son sinn Ísak og lagði hann upp á altarið, ofan á viðinn.

10 Og Abraham rétti út hönd sína og tók hnífinn til að slátra syni sínum.

11 Þá kallaði engill Drottins til hans af himni og mælti: "Abraham! Abraham!" Hann svaraði: "Hér er ég."

12 Hann sagði: "Legg þú ekki hönd á sveininn og gjör þú honum ekkert, því að nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn."

13 Þá varð Abraham litið upp, og hann sá hrút bak við sig, sem var fastur á hornunum í hrísrunni. Og Abraham fór og tók hrútinn og bar hann fram að brennifórn í stað sonar síns.

14 Og Abraham kallaði þennan stað "Drottinn sér," svo að það er máltæki allt til þessa dags: "Á fjallinu, þar sem Drottinn birtist."

15 Engill Drottins kallaði annað sinn af himni til Abrahams

16 og mælti: "Ég sver við sjálfan mig," segir Drottinn, "að fyrst þú gjörðir þetta og synjaðir mér eigi um einkason þinn,

17 þá skal ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni, sem sand á sjávarströnd. Og niðjar þínir skulu eignast borgarhlið óvina sinna.

18 Og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu."

19 Eftir það fór Abraham aftur til sveina sinna, og þeir tóku sig upp og fóru allir saman til Beerseba. Og Abraham bjó enn um hríð í Beerseba.

Bréfið til Hebrea 11:1-3

11 Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.

Fyrir hana fengu mennirnir fyrr á tíðum góðan vitnisburð.

Fyrir trú skiljum vér, að heimarnir eru gjörðir með orði Guðs og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, er séð varð.

Bréfið til Hebrea 11:13-19

13 Allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.

14 Þeir, sem slíkt mæla, sýna með því, að þeir eru að leita eigin ættjarðar.

15 Hefðu þeir nú átt við ættjörðina, sem þeir fóru frá, þá hefðu þeir haft tíma til að snúa þangað aftur.

16 En nú þráðu þeir betri ættjörð, það er að segja himneska. Þess vegna blygðast Guð sín ekki fyrir þá, að kallast Guð þeirra, því að borg bjó hann þeim.

17 Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak, er hann var reyndur. Og Abraham, sem fengið hafði fyrirheitin, var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum.

18 Við hann hafði Guð mælt: "Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir."

19 Hann hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum. Þess vegna má svo að orði kveða, að hann heimti hann aftur úr helju.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society