Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 17:1-7

17 Er Abram var níutíu og níu ára gamall, birtist Drottinn honum og sagði: "Ég er Almáttugur Guð. Gakk þú fyrir mínu augliti og ver grandvar,

þá vil ég gjöra sáttmála milli mín og þín, og margfalda þig mikillega."

Þá féll Abram fram á ásjónu sína, og Guð talaði við hann og sagði:

"Sjá, það er ég, sem hefi gjört við þig sáttmála, og þú skalt verða faðir margra þjóða.

Því skalt þú eigi lengur nefnast Abram, heldur skalt þú heita Abraham, því að föður margra þjóða gjöri ég þig.

Og ég mun gjöra þig mjög frjósaman og gjöra þig að þjóðum, og af þér skulu konungar koma.

Og ég gjöri sáttmála milli mín og þín og þinna niðja eftir þig, frá einum ættlið til annars, ævinlegan sáttmála: að vera þinn Guð og þinna niðja eftir þig.

Fyrsta bók Móse 17:15-16

15 Guð sagði við Abraham: "Saraí konu þína skalt þú ekki lengur nefna Saraí, heldur skal hún heita Sara.

16 Og ég mun blessa hana, og með henni mun ég einnig gefa þér son. Og ég mun blessa hana, og hún skal verða ættmóðir heilla þjóða, hún mun verða ættmóðir þjóðkonunga."

Sálmarnir 22:23-31

23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!

24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!

25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.

26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.

27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.

28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.

29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.

30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,

31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,

Bréf Páls til Rómverja 4:13-25

13 Ekki var Abraham eða niðjum hans fyrir lögmál gefið fyrirheitið, að hann skyldi verða erfingi heimsins, heldur fyrir trúar-réttlæti.

14 Ef lögmálsmennirnir eru erfingjar, er trúin ónýtt og fyrirheitið að engu gjört.

15 Því að lögmálið vekur reiði. En þar sem ekki er lögmál, þar eru ekki heldur lögmálsbrot.

16 Því er fyrirheitið byggt á trú, til þess að það sé af náð, og megi stöðugt standa fyrir alla niðja hans, ekki fyrir þá eina, sem hafa lögmálið, heldur og fyrir þá, sem eiga trú Abrahams. Hann er faðir vor allra,

17 eins og skrifað stendur: "Föður margra þjóða hef ég sett þig." Og það er hann frammi fyrir Guði, sem hann trúði á, honum sem lífgar dauða og kallar fram það, sem ekki er til eins og það væri til.

18 Abraham trúði með von, gegn von, að hann skyldi verða faðir margra þjóða, samkvæmt því sem sagt hafði verið: "Svo skal afkvæmi þitt verða."

19 Og ekki veiklaðist hann í trúnni þótt hann minntist þess, að hann var kominn að fótum fram _ hann var nálega tíræður, _ og að Sara gat ekki orðið barnshafandi sakir elli.

20 Um fyrirheit Guðs efaðist hann ekki með vantrú, heldur gjörðist styrkur í trúnni. Hann gaf Guði dýrðina,

21 og var þess fullviss, að hann er máttugur að efna það, sem hann hefur lofað.

22 "Fyrir því var það honum og til réttlætis reiknað."

23 En að það var honum tilreiknað, það var ekki ritað hans vegna einungis,

24 heldur líka vor vegna. Oss mun það tilreiknað verða, sem trúum á hann, sem uppvakti Jesú, Drottin vorn, frá dauðum,

25 hann sem var framseldur vegna misgjörða vorra og vegna réttlætingar vorrar uppvakinn.

Markúsarguðspjall 8:31-38

31 Þá tók hann að kenna þeim: "Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa eftir þrjá daga."

32 Þetta sagði hann berum orðum. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann.

33 Jesús sneri sér við, leit til lærisveina sinna, ávítaði Pétur og sagði: "Vík frá mér, Satan, eigi hugsar þú um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er."

34 Og hann kallaði til sín mannfjöldann ásamt lærisveinum sínum og sagði við þá: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.

35 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins, mun bjarga því.

36 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en fyrirgjöra sálu sinni?

37 Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?

38 En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð hjá þessari ótrúu, syndugu kynslóð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð föður síns með heilögum englum."

Markúsarguðspjall 9:2-9

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra,

og klæði hans urðu fannhvít og skínandi, og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gjört.

Og þeim birtist Elía ásamt Móse, og voru þeir á tali við Jesú.

Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: "Rabbí, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina."

Hann vissi ekki, hvað hann átti að segja, enda urðu þeir mjög skelfdir.

Þá kom ský og skyggði yfir þá, og rödd kom úr skýinu: "Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!"

Og snögglega, þegar þeir litu í kring, sáu þeir engan framar hjá sér nema Jesú einan.

Á leiðinni ofan fjallið bannaði hann þeim að segja nokkrum frá því, er þeir höfðu séð, fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society