Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
25 Davíðssálmur.
2 Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.
3 Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.
4 Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.
5 Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.
6 Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.
7 Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.
8 Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.
9 Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.
10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.
15 Og nú, Drottinn Guð vor, þú sem útleiddir lýð þinn af Egyptalandi með sterkri hendi og afrekaðir þér mikið nafn fram á þennan dag, vér höfum syndgað, vér höfum breytt óguðlega.
16 Drottinn, lát þú samkvæmt réttlæti því, er þú ávallt hefir sýnt, gremi þína og heiftarreiði þína hverfa frá borg þinni Jerúsalem, þínu heilaga fjalli, því að fyrir syndir vorar og misgjörðir feðra vorra er Jerúsalem og lýður þinn orðinn að háðung hjá öllum þeim, sem umhverfis oss búa.
17 Heyr nú, Guð vor, bæn þjóns þíns og grátbeiðni hans og lát ásjónu þína lýsa, fyrir sjálfs þín sakir, Drottinn, yfir helgidóm þinn, sem nú er í eyði.
18 Hneig, Guð minn, eyra þitt og heyr, ljúk upp augum þínum og sjá eyðing vora og borgina, sem nefnd er eftir nafni þínu, því að ekki framberum vér auðmjúkar bænir fyrir þig í trausti til vors eigin réttlætis, heldur í trausti til þinnar miklu miskunnsemi.
19 Drottinn, heyr! Drottinn, fyrirgef! Drottinn, hygg að og framkvæm! Tef eigi, fyrir sjálfs þín sakir, Guð minn, því að eftir þínu nafni er borg þín nefnd og lýður þinn!"
20 Meðan ég enn var að tala, baðst fyrir og játaði syndir mínar og syndir lýðs míns, Ísraels, og frambar fyrir Drottin Guð minn auðmjúka bæn fyrir hinu heilaga fjalli Guðs míns,
21 já, meðan ég enn var að tala í bæninni, kom að mér um það bil, er kveldfórn er fram borin, maðurinn Gabríel, sem ég hafði áður séð í sýninni, þá er ég hné í ómegin.
22 Hann kom og talaði við mig og sagði: "Daníel, nú er ég út genginn til þess að veita þér glöggan skilning.
23 Þegar þú byrjaðir bæn þína, út gekk orð, og er ég hingað kominn til að kunngjöra þér það, því að þú ert ástmögur Guðs. Tak því eftir orðinu og gef gætur að vitraninni.
24 Sjötíu sjöundir eru ákveðnar lýð þínum og þinni heilögu borg til þess að drýgja glæpinn til fulls og fylla mæli syndanna og til þess að friðþægja fyrir misgjörðina og leiða fram eilíft réttlæti, til þess að innsigla vitrun og spámann og vígja hið háheilaga.
25 Vit því og hygg að: Frá því, er orðið um endurreisn Jerúsalem út gekk, til hins smurða höfðingja, eru sjö sjöundir, og í sextíu og tvær sjöundir skulu torg hennar og stræti endurreist verða, þó að þrengingartímar séu.
4 Fyrir augliti Guðs og Krists Jesú, sem dæma mun lifendur og dauða, með endurkomu hans fyrir augum og ríki hans heiti ég á þig:
2 Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma. Vanda um, ávíta, áminn með öllu langlyndi og fræðslu.
3 Því að þann tíma mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það, sem kitlar eyrun.
4 Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum.
5 En ver þú algáður í öllu, þol illt, gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína.
by Icelandic Bible Society