Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
25 Davíðssálmur.
2 Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.
3 Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.
4 Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.
5 Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.
6 Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.
7 Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.
8 Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.
9 Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.
10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.
9 Á fyrsta ríkisári Daríusar Ahasverussonar, sem var medískur að ætt og orðinn konungur yfir ríki Kaldea,
2 á fyrsta ári ríkisstjórnar hans, hugði ég, Daníel, í ritningunum að áratölu þeirri, er Jerúsalem átti að liggja í rústum, samkvæmt orði Drottins, því er til Jeremía spámanns hafði komið, sem sé sjötíu ár.
3 Ég sneri þá ásjónu minni til Drottins Guðs til þess að bera fram bæn mína og grátbeiðni með föstu, í sekk og ösku.
4 Ég bað til Drottins, Guðs míns, gjörði játningu mína og sagði: "Æ, Drottinn, þú mikli og ógurlegi Guð, sem heldur sáttmálann og miskunnsemina við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans.
5 Vér höfum syndgað og illa gjört, vér höfum breytt óguðlega og verið þér mótsnúnir og vikið frá boðum þínum og setningum.
6 Vér höfum ekki hlýtt þjónum þínum, spámönnunum, sem töluðu í þínu nafni til konunga vorra, höfðingja og feðra og til alls landslýðsins.
7 Þú, Drottinn, ert réttlátur, en vér megum blygðast vor, sem vér og gjörum í dag, vér Júdamenn og Jerúsalembúar og allur Ísrael, bæði þeir sem nálægir eru og þeir sem fjarlægir eru í öllum þeim löndum, þangað sem þú hefir rekið þá fyrir tryggðrof þeirra, er þeir hafa í frammi við þig haft.
8 Drottinn, vér megum blygðast vor, konungar vorir, höfðingjar vorir og feður vorir, því að vér höfum syndgað móti þér.
9 En hjá Drottni, Guði vorum, er miskunnsemi og fyrirgefning, því að vér höfum verið honum mótsnúnir
10 og ekki hlýtt raustu Drottins Guðs vors, að breyta eftir boðorðum hans, þeim er hann fyrir oss lagði fyrir munn þjóna sinna, spámannanna.
11 Já, allur Ísrael hefir brotið lögmál þitt, hefir vikið frá þér, svo að hann hlýðir eigi framar raustu þinni. Þá var þeirri eiðfestu bölvan úthellt yfir oss, sem skrifuð er í lögmáli Móse, þjóns Guðs, því að vér höfum syndgað móti honum.
12 Og hann efndi orð sín, þau er hann hafði talað gegn oss og dómurum vorum, þeim er yfirráð höfðu yfir oss, að hann skyldi láta mikla ógæfu yfir oss koma, svo að hvergi á jarðríki hefir slík ógæfa orðið sem í Jerúsalem.
13 Eins og skrifað er í lögmáli Móse um alla þessa ógæfu, svo er hún yfir oss komin. Og vér höfum ekki blíðkað Drottin Guð vorn með því að hverfa frá misgjörðum vorum og gefa gætur að trúfesti þinni.
14 Og Drottinn vakti yfir ógæfunni og lét hana yfir oss koma, því að Drottinn Guð vor er réttlátur í öllum verkum sínum, þeim er hann gjörir, en vér höfum eigi hlýtt raustu hans.
3 Já, það sem vér höfum séð og heyrt, það boðum vér yður einnig, til þess að þér getið líka haft samfélag við oss. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist.
4 Þetta skrifum vér til þess að fögnuður vor verði fullkominn.
5 Og þetta er boðskapurinn, sem vér höfum heyrt af honum og boðum yður: "Guð er ljós, og myrkur er alls ekki í honum."
6 Ef vér segjum: "Vér höfum samfélag við hann," og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum vér og iðkum ekki sannleikann.
7 En ef vér göngum í ljósinu, eins og hann er sjálfur í ljósinu, þá höfum vér samfélag hver við annan og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar oss af allri synd.
8 Ef vér segjum: "Vér höfum ekki synd," þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss.
9 Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.
10 Ef vér segjum: "Vér höfum ekki syndgað," þá gjörum vér hann að lygara og orð hans er ekki í oss.
by Icelandic Bible Society