Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðari bók konunganna 2:1-12

Þegar Drottinn ætlaði að láta Elía fara til himins í stormviðri, voru þeir Elía og Elísa á leið frá Gilgal.

Þá sagði Elía við Elísa: "Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Betel." En Elísa svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá ofan til Betel.

Spámannasveinar þeir, er voru í Betel, gengu út á móti Elísa og sögðu við hann: "Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?" Elísa svaraði: "Veit ég það líka. Verið hljóðir!"

Þá sagði Elía við hann: "Elísa, vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jeríkó." Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá til Jeríkó.

Þá gengu spámannasveinar þeir, er voru í Jeríkó, til Elísa og sögðu við hann: "Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?" Elísa svaraði: "Veit ég það líka. Verið hljóðir!"

Þá sagði Elía við hann: "Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jórdanar." Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá báðir saman.

En fimmtíu manns af spámannasveinunum fóru og námu staðar til hliðar í nokkurri fjarlægð, en hinir báðir gengu að Jórdan.

Þá tók Elía skikkju sína, braut hana saman og sló á vatnið. Skipti það sér þá til beggja hliða, en þeir gengu báðir yfir um á þurru.

En er þeir voru komnir yfir um, sagði Elía við Elísa: "Bið þú mig einhvers, er ég megi veita þér, áður en ég verð numinn burt frá þér." Elísa svaraði: "Mættu mér þá hlotnast tveir hlutar af andagift þinni."

10 Þá mælti Elía: "Til mikils hefir þú mælst. En ef þú sér mig, er ég verð numinn burt frá þér, þá mun þér veitast það, ella eigi."

11 En er þeir héldu áfram og voru að tala saman, þá kom allt í einu eldlegur vagn og eldlegir hestar og skildu þá að, og Elía fór til himins í stormviðri.

12 Og er Elísa sá það, kallaði hann: "Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!" Og hann sá hann ekki framar. Þá þreif hann í klæði sín og reif þau sundur í tvo hluti.

Sálmarnir 50:1-6

50 Asafs-sálmur. Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar.

Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð.

Guð vor kemur og þegir ekki. Eyðandi eldur fer fyrir honum, og í kringum hann geisar stormurinn.

Hann kallar á himininn uppi og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn:

"Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum."

Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans, því að Guð er sá sem dæmir. [Sela]

Síðara bréf Páls til Kori 4:3-6

En ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast.

Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.

Ekki prédikum vér sjálfa oss, heldur Krist Jesú sem Drottin, en sjálfa oss sem þjóna yðar vegna Jesú.

Því að Guð, sem sagði: "Ljós skal skína fram úr myrkri!" _ hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.

Markúsarguðspjall 9:2-9

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra,

og klæði hans urðu fannhvít og skínandi, og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gjört.

Og þeim birtist Elía ásamt Móse, og voru þeir á tali við Jesú.

Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: "Rabbí, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina."

Hann vissi ekki, hvað hann átti að segja, enda urðu þeir mjög skelfdir.

Þá kom ský og skyggði yfir þá, og rödd kom úr skýinu: "Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!"

Og snögglega, þegar þeir litu í kring, sáu þeir engan framar hjá sér nema Jesú einan.

Á leiðinni ofan fjallið bannaði hann þeim að segja nokkrum frá því, er þeir höfðu séð, fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society