Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 50:1-6

50 Asafs-sálmur. Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar.

Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð.

Guð vor kemur og þegir ekki. Eyðandi eldur fer fyrir honum, og í kringum hann geisar stormurinn.

Hann kallar á himininn uppi og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn:

"Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum."

Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans, því að Guð er sá sem dæmir. [Sela]

Fyrri bók konunganna 11:26-40

26 Jeróbóam Nebatsson, Efraímíti frá Sereda, þjónn Salómons, gjörði og uppreisn gegn konungi. Móðir hans hét Serúa og var ekkja.

27 Þannig atvikaðist uppreisnin: Salómon var að byggja Milló og byggði fyrir skarðið, sem var á borg Davíðs föður hans.

28 Jeróbóam þessi var mesti dugnaðarmaður, og er Salómon sá, að þessi ungi maður var iðjumaður, setti hann hann yfir alla kvaðarmenn Jósefs ættar.

29 En svo bar til um þetta leyti, að Jeróbóam fór burt úr Jerúsalem, og Ahía spámaður frá Síló mætti honum á leiðinni. Ahía var klæddur nýrri yfirhöfn, og voru þeir tveir einir úti á víðavangi.

30 Þá þreif Ahía nýju yfirhöfnina, sem hann var í, reif hana sundur í tólf hluti

31 og sagði við Jeróbóam: "Tak þú þér tíu hluti. Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Sjá, ég ríf konungdóminn frá Salómon og gef þér tíu ættkvíslirnar,

32 en einni ættkvíslinni skal hann halda, sakir þjóns míns Davíðs og sakir Jerúsalem, borgarinnar, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels,

33 sökum þess að þeir hafa yfirgefið mig og fallið fram fyrir Astarte, goði Sídoninga, Kamos, goði Móabíta, og Milkóm, goði Ammóníta, og eigi gengið á mínum vegum með því að gjöra það, sem rétt er í mínum augum, og halda lög mín og ákvæði, eins og gjörði Davíð faðir hans.

34 En eigi vil ég taka af honum allt ríkið, heldur vil ég láta hann vera þjóðhöfðingja alla ævi, sakir Davíðs þjóns míns, er ég útvaldi, en hann hélt ákvæði mín og lög.

35 En ég vil taka konungdóminn frá syni hans og gefa þér hann, tíu ættkvíslirnar.

36 En syni hans mun ég gefa eina ættkvísl, svo að þjónn minn Davíð hafi ávallt lampa fyrir augliti mínu í Jerúsalem, borginni, sem ég hefi útvalið til þess að láta nafn mitt búa þar.

37 En þig vil ég taka til þess að ríkja yfir öllu, sem þú girnist, og til að vera konungur yfir Ísrael.

38 Og ef þú hlýðir öllu, sem ég býð þér, og gengur á mínum vegum, gjörir það sem rétt er í mínum augum og heldur lög mín og boðorð, eins og Davíð þjónn minn gjörði, þá vil ég vera með þér og reisa þér stöðugt hús, eins og ég reisti Davíð, og fá þér Ísrael.

39 En niðja Davíðs mun ég auðmýkja sakir þessa, þó eigi um aldur og ævi."

40 En Salómon leitaðist við að ráða Jeróbóam af dögum, en Jeróbóam tók sig upp og flýði til Egyptalands, til Sísaks konungs í Egyptalandi, og var hann í Egyptalandi, þar til er Salómon andaðist.

Síðara bréf Páls til Kori 2:12-17

12 En er ég kom til Tróas til að boða fagnaðarerindið um Krist og mér stóðu þar opnar dyr í þjónustu Drottins,

13 þá hafði ég enga eirð í mér, af því að ég hitti ekki Títus, bróður minn, svo að ég kvaddi þá og fór til Makedóníu.

14 En Guði séu þakkir, sem fer með oss í óslitinni sigurför Krists og lætur oss útbreiða ilm þekkingarinnar á honum á hverjum stað.

15 Því að vér erum góðilmur Krists fyrir Guði meðal þeirra, er hólpnir verða, og meðal þeirra, sem glatast;

16 þeim síðarnefndu ilmur af dauða til dauða, en hinum ilmur af lífi til lífs. Og hver er til þessa hæfur?

17 Ekki erum vér eins og hinir mörgu, er pranga með Guðs orð, heldur flytjum vér það af hreinum huga frá Guði frammi fyrir augliti Guðs, með því að vér erum í Kristi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society