Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras.
13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu, og nafn þitt varir frá kyni til kyns.
14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon, því að tími er kominn til þess að líkna henni, já, stundin er komin.
15 Þjónar þínir elska steina hennar og harma yfir öskuhrúgum hennar.
16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,
17 því að Drottinn byggir upp Síon og birtist í dýrð sinni.
18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu og fyrirlítur eigi bæn þeirra.
19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð, og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin.
20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum, horfir frá himni til jarðar
21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna og leysa börn dauðans,
22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon og lofstír hans í Jerúsalem,
23 þegar þjóðirnar safnast saman og konungsríkin til þess að þjóna Drottni.
24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni, stytt daga mína.
25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni. Ár þín vara frá kyni til kyns.
26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.
27 Þeir líða undir lok, en þú varir. Þeir fyrnast sem fat, þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa.
28 En þú ert hinn sami, og þín ár fá engan enda.
8 Elísa talaði við konuna, er soninn átti, sem hann hafði lífgað, á þessa leið: "Tak þig upp og far burt með fólk þitt og sest þú að einhvers staðar erlendis, því að Drottinn kallar sjö ára hallæri yfir landið, og er það þegar komið."
2 Þá tók konan sig upp og gjörði eins og guðsmaðurinn sagði, fór burt með fólk sitt og dvaldist sjö ár í Filistalandi.
3 Að sjö árunum liðnum kom konan aftur heim frá Filistalandi og lagði af stað til þess að biðja konung ásjár um hús sitt og akra.
4 Konungur var þá að tala við Gehasí, þjón guðsmannsins, og sagði: "Seg mér af öllum stórmerkjunum, sem Elísa hefir gjört."
5 Og er hann var að segja konungi, hvernig hann hefði lífgað hinn dána, þá kom konan, er soninn átti, sem hann hafði lífgað, og bað konung ásjár um hús sitt og akra. Þá sagði Gehasí: "Minn herra konungur! Þetta er konan, og þetta er sonur hennar, sá er Elísa lífgaði."
6 Konungur spurði konuna, og sagði hún honum frá. Fékk konungur henni einn af hirðmönnunum og sagði við hann: "Sjá þú um, að hún fái aftur allt, sem hún á, svo og allan afrakstur akranna frá þeim degi, er hún fór úr landi, allt til þessa dags."
36 Eftir nokkra daga sagði Páll við Barnabas: "Förum nú aftur og vitjum bræðranna í hverri borg, þar sem vér höfum boðað orð Drottins, og sjáum, hvað þeim líður."
37 Barnabas vildi þá líka taka með Jóhannes, er kallaður var Markús.
38 En Páli þótti eigi rétt að taka með þann mann, er skilið hafði við þá í Pamfýlíu og ekki gengið að verki með þeim.
39 Varð þeim mjög sundurorða, og skildi þar með þeim. Tók Barnabas Markús með sér og sigldi til Kýpur.
40 En Páll kaus sér Sílas og fór af stað, og fólu bræðurnir hann náð Drottins.
41 Fór hann um Sýrland og Kilikíu og styrkti söfnuðina.
by Icelandic Bible Society