Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jesaja 40:21-31

21 Vitið þér ekkert? Heyrið þér ekki? Hefir yður eigi verið kunngjört það frá upphafi? Hafið þér engan skilning hlotið frá grundvöllun jarðar?

22 Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni, og þeir, sem á henni búa, eru sem engisprettur. Það er hann, sem þenur út himininn eins og þunna voð og slær honum sundur eins og tjaldi til þess að búa í.

23 Það er hann, sem lætur höfðingjana verða að engu og gjörir drottna jarðarinnar að hégóma.

24 Varla eru þeir gróðursettir, varla niðursánir, varla hefir stofn þeirra náð að festa rætur í jörðinni fyrr en hann andar á þá, og þá skrælna þeir upp og stormbylurinn feykir þeim burt eins og hálmleggjum.

25 Við hvern viljið þér samlíkja mér, að ég sé honum jafn? segir Hinn heilagi.

26 Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.

27 Hví segir þú þá svo, Jakobsætt, og hví mælir þú þá svo, Ísrael: "Hagur minn er hulinn fyrir Drottni, og réttur minn er genginn úr höndum Guði mínum?"

28 Veistu þá ekki? Hefir þú ekki heyrt? Drottinn er eilífur Guð, er skapað hefir endimörk jarðarinnar. Hann þreytist ekki, hann lýist ekki, speki hans er órannsakanleg.

29 Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa.

30 Ungir menn þreytast og lýjast, og æskumenn hníga,

31 en þeir, sem vona á Drottin, fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.

Sálmarnir 147:1-11

147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.

Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.

Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.

Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.

Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.

Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.

Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.

Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.

Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.

10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.

11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.

Sálmarnir 147:20

20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.

Fyrra bréf Páls til Korin 9:16-23

16 Þótt ég sé að boða fagnaðarerindið, þá er það mér ekki neitt hrósunarefni, því að skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.

17 Því að gjöri ég þetta af frjálsum vilja, þá fæ ég laun, en gjöri ég það tilknúður, þá hefur mér verið trúað fyrir ráðsmennsku.

18 Hver eru þá laun mín? Að ég boða fagnaðarerindið án endurgjalds og hagnýti mér ekki það, sem ég á rétt á.

19 Þótt ég sé öllum óháður, hef ég gjört sjálfan mig að þræli allra, til þess að ávinna sem flesta.

20 Ég hef verið Gyðingunum sem Gyðingur, til þess að ávinna Gyðinga. Þeim, sem eru undir lögmálinu, hef ég verið eins og sá, sem er undir lögmálinu, enda þótt ég sjálfur sé ekki undir lögmálinu, til þess að ávinna þá, sem eru undir lögmálinu.

21 Hinum lögmálslausu hef ég verið sem lögmálslaus, þótt ég sé ekki laus við lögmál Guðs, heldur bundinn lögmáli Krists, til þess að ávinna hina lögmálslausu.

22 Hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur til þess að ávinna hina óstyrku. Ég hef verið öllum allt, til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra.

23 Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að ég fái hlutdeild með því.

Markúsarguðspjall 1:29-39

29 Úr samkundunni fóru þeir rakleitt í hús Símonar og Andrésar og með þeim Jakob og Jóhannes.

30 Tengdamóðir Símonar lá með sótthita, og sögðu þeir Jesú þegar frá henni.

31 Hann gekk þá að, tók í hönd henni og reisti hana á fætur. Sótthitinn fór úr henni, og hún gekk þeim fyrir beina.

32 Þegar kvöld var komið og sólin setst, færðu menn til hans alla þá, er sjúkir voru og haldnir illum öndum,

33 og allur bærinn var saman kominn við dyrnar.

34 Hann læknaði marga, er þjáðust af ýmsum sjúkdómum, og rak út marga illa anda, en illu öndunum bannaði hann að tala, því að þeir vissu hver hann var.

35 Og árla, löngu fyrir dögun, fór hann á fætur og gekk út, vék burt á óbyggðan stað og baðst þar fyrir.

36 Þeir Símon leituðu hann uppi,

37 og þegar þeir fundu hann, sögðu þeir við hann: "Allir eru að leita að þér."

38 Hann sagði við þá: "Vér skulum fara annað, í þorpin hér í grennd, svo að ég geti einnig prédikað þar, því að til þess er ég kominn."

39 Og hann fór og prédikaði í samkundum þeirra í allri Galíleu og rak út illa anda.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society