Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
2 Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.
4 Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.
5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.
6 Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.
7 Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.
8 Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.
9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.
10 Hinn réttláti er nærgætinn um þörf skepna sinna, en hjarta óguðlegra er hart.
11 Sá sem yrkir land sitt, mettast af brauði, en sá sem sækist eftir hégómlegum hlutum, er óvitur.
12 Hinn óguðlegi ágirnist feng hinna vondu, en rót réttlátra er varanleg.
13 Yfirsjón varanna er ill snara, en hinn réttláti bjargast úr nauðum.
14 Af ávexti munnsins mettast maðurinn gæðum, og það sem hendur hans hafa öðrum gjört, kemur aftur yfir hann.
15 Afglapanum finnst sinn vegur réttur, en vitur maður hlýðir á ráð.
16 Gremja afglapans kemur þegar í ljós, en kænn maður dylur smán sína.
17 Sá sem segir sannleikann hispurslaust, mælir fram það sem rétt er, en falsvotturinn svik.
18 Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur, en tunga hinna vitru græðir.
19 Sannmálar varir munu ávallt standast, en lygin tunga aðeins stutta stund.
20 Yfir svikum búa þeir, er illt brugga, en gleði valda þeir, er ráða til friðar.
21 Réttlátum manni ber aldrei böl að hendi, en óhamingja hleðst á óguðlega.
2 Takið eftir því, sem ég, Páll, segi yður: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert.
3 Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið.
4 Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni.
5 En vér væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna, sem er von vor.
6 Í Kristi Jesú er ekkert komið undir umskurn né yfirhúð, heldur undir trú, sem starfar í kærleika.
7 Þér hlupuð vel. Hver hefur hindrað yður í að hlýða sannleikanum?
8 Þær fortölur voru ekki frá honum, sem kallaði yður.
9 Lítið súrdeig sýrir allt deigið.
10 Ég hef það traust til yðar í Drottni, að þér verðið sama sinnis og ég. Sá sem truflar yður mun bera sinn dóm, hver sem hann svo er.
11 En hvað mig snertir, bræður, ef ég er enn þá að prédika umskurn, hví er þá enn verið að ofsækja mig? Þá væri hneyksli krossins tekið burt.
12 Vel mættu þeir, sem koma yður í uppnám, aflima sig.
13 Þér voruð, bræður, kallaðir til frelsis. Notið aðeins ekki frelsið til færis fyrir holdið, heldur þjónið hver öðrum í kærleika.
14 Allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina boðorði: "Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig."
15 En ef þér bítist og etið hver annan upp, þá gætið þess, að þér tortímist ekki hver fyrir öðrum.
by Icelandic Bible Society