Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
35 Davíðssálmur. Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig, berst þú við þá er berjast við mig.
2 Tak skjöld og törgu og rís upp mér til hjálpar.
3 Tak til spjót og öxi til þess að mæta ofsækjendum mínum, seg við sál mína: "Ég er hjálp þín!"
4 Lát þá er sitja um líf mitt hljóta smán og svívirðing, lát þá hverfa aftur með skömm, er ætla að gjöra mér illt.
5 Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi, þegar engill Drottins varpar þeim um koll.
6 Lát veg þeirra verða myrkan og hálan, þegar engill Drottins eltir þá.
7 Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig, að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig.
8 Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst, lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá, lát þá falla í þeirra eigin gryfju.
9 En sál mín skal kætast yfir Drottni, gleðjast yfir hjálpræði hans.
10 Öll bein mín skulu segja: "Drottinn, hver er sem þú, er frelsar hinn umkomulausa frá þeim sem er honum yfirsterkari, hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?"
29 Þessi eru orð bréfsins, sem Jeremía spámaður sendi frá Jerúsalem til öldunga hinna herleiddu og til prestanna og til spámannanna og til alls lýðsins, sem Nebúkadnesar hafði herleitt frá Jerúsalem til Babýlon
2 (eftir að Jekonja konungur og konungsmóðir og hirðmennirnir, höfðingjar Júda og Jerúsalem, og trésmiðirnir og járnsmiðirnir voru farnir burt úr Jerúsalem),
3 með Elasa Safanssyni og Gemaría Hilkíasyni, sem Sedekía Júdakonungur sendi til Nebúkadnesars Babelkonungs til Babýlon:
4 "Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, öllum hinum herleiddu, þeim er ég herleiddi frá Jerúsalem til Babýlon:
5 Reisið hús og búið í þeim, plantið garða og etið ávöxtu þeirra.
6 Takið yður konur og getið sonu og dætur, og takið sonum yðar konur og giftið dætur yðar, til þess að þær megi fæða sonu og dætur og yður fjölgi þar, en fækki ekki.
7 Látið yður umhugað um heill borgarinnar, sem ég herleiddi yður til, og biðjið til Drottins fyrir henni, því að heill hennar er heill sjálfra yðar.
8 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Látið eigi spámenn yðar, sem meðal yðar eru, né spásagnamenn yðar tæla yður, og trúið ekki á drauma yðar, sem yður dreymir.
9 Því að þeir spá yður ranglega í mínu nafni, ég hefi ekki sent þá! _ segir Drottinn.
10 Svo segir Drottinn: Þegar sjötíu ár eru umliðin fyrir Babýlon, mun ég vitja yðar og efna við yður fyrirheit mitt að flytja yður aftur á þennan stað.
11 Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður _ segir Drottinn _ fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.
12 Þá munuð þér ákalla mig og fara og biðja til mín, og ég mun bænheyra yður.
13 Og þér munuð leita mín og finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta,
14 vil ég láta yður finna mig _ segir Drottinn _ og snúa við högum yðar og safna yður saman frá öllum þjóðum og úr öllum þeim stöðum, þangað sem ég hefi rekið yður _ segir Drottinn _ og flytja yður aftur á þann stað, þaðan sem ég herleiddi yður.
5 Þeir komu nú yfir um vatnið í byggð Gerasena.
2 Og um leið og Jesús sté úr bátnum, kom maður á móti honum frá gröfunum, haldinn óhreinum anda.
3 Hann hafðist við í gröfunum, og enginn gat lengur bundið hann, ekki einu sinni með hlekkjum.
4 Oft hafði hann verið fjötraður á fótum og höndum, en hann braut jafnóðum af sér hlekkina og sleit fjötrana, og gat enginn ráðið við hann.
5 Allar nætur og daga var hann í gröfunum eða á fjöllum, æpti og lamdi sig grjóti.
6 Þegar hann sá Jesú álengdar, hljóp hann og féll fram fyrir honum
7 og æpti hárri röddu: "Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég særi þig við Guð, kvel þú mig eigi!"
8 Því að Jesús hafði sagt við hann: "Þú óhreini andi, far út af manninum."
9 Jesús spurði hann þá: "Hvað heitir þú?" Hinn svaraði: "Hersing heiti ég, vér erum margir."
10 Og hann bað Jesú ákaft að senda þá ekki brott úr héraðinu.
11 En þar í fjallinu var mikil svínahjörð á beit.
12 Og þeir báðu hann: "Send oss í svínin, lát oss fara í þau!"
13 Hann leyfði þeim það, og fóru þá óhreinu andarnir út og í svínin, og hjörðin, nær tveim þúsundum, ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði þar.
14 En hirðarnir flýðu og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni. Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði,
15 komu til Jesú og sáu haldna manninn, sem hersingin hafði verið í, sitja þar klæddan og heilvita. Og þeir urðu hræddir.
16 En sjónarvottar sögðu þeim, hvað fram hafði farið við haldna manninn, og frá svínunum.
17 Og þeir tóku að biðja Jesú að fara burt úr héruðum þeirra.
18 Þá er hann sté í bátinn, bað sá, er haldinn hafði verið, að fá að vera með honum.
19 En Jesús leyfði honum það eigi, heldur sagði: "Far heim til þín og þinna, og seg þeim, hve mikið Drottinn hefur gjört fyrir þig og verið þér miskunnsamur."
20 Hann fór og tók að kunngjöra í Dekapólis, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört, og undruðust það allir.
by Icelandic Bible Society