Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
35 Davíðssálmur. Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig, berst þú við þá er berjast við mig.
2 Tak skjöld og törgu og rís upp mér til hjálpar.
3 Tak til spjót og öxi til þess að mæta ofsækjendum mínum, seg við sál mína: "Ég er hjálp þín!"
4 Lát þá er sitja um líf mitt hljóta smán og svívirðing, lát þá hverfa aftur með skömm, er ætla að gjöra mér illt.
5 Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi, þegar engill Drottins varpar þeim um koll.
6 Lát veg þeirra verða myrkan og hálan, þegar engill Drottins eltir þá.
7 Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig, að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig.
8 Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst, lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá, lát þá falla í þeirra eigin gryfju.
9 En sál mín skal kætast yfir Drottni, gleðjast yfir hjálpræði hans.
10 Öll bein mín skulu segja: "Drottinn, hver er sem þú, er frelsar hinn umkomulausa frá þeim sem er honum yfirsterkari, hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?"
22 Ísraelsmenn lögðu upp og settu búðir sínar á Móabsheiðum, hinumegin Jórdanar gegnt Jeríkó.
2 En Balak Sippórsson sá allt það, sem Ísrael gjörði Amorítum.
3 Urðu Móabítar þá næsta hræddir við lýðinn, því að hann var fjölmennur, og það stóð þeim stuggur af Ísraelsmönnum.
4 Þá sögðu Móabítar við öldunga Midíansmanna: "Nú mun mannfjöldi þessi upp eta allt í kringum oss, eins og uxar eta grængresi í haga." Balak Sippórsson var um þær mundir konungur í Móab.
5 Sendi hann menn á fund Bíleams Beórssonar, til Petór, sem er við Efrat, í land samlanda sinna, til þess að sækja hann, og lét segja honum: "Sjá, þjóð nokkur er komin frá Egyptalandi. Þekur hún land allt og hefir nú tekið sér bólfestu gagnvart mér.
6 Kom því og bölva þjóð þessari fyrir mig, því að hún er mér ofurefli. Vera má, að ég fái þá sigrast á henni og stökkt henni úr landi, því að ég veit, að sá er blessaður, sem þú blessar, og sá bölvaður, sem þú bölvar."
7 Öldungar Móabíta og öldungar Midíansmanna fóru nú af stað og höfðu með sér spásagnarlaunin. Komu þeir til Bíleams og fluttu honum orð Balaks.
8 Bíleam sagði við þá: "Verið hér í nótt, og mun ég svara yður, eftir því sem Drottinn segir mér." Og höfðingjar Móabíta voru hjá Bíleam um nóttina.
9 En Guð kom til Bíleams og sagði: "Hvaða menn eru það, sem hjá þér eru?"
10 Bíleam sagði við Guð: "Balak Sippórsson, konungur í Móab, hefir gjört mér þessa orðsending:
11 ,Sjá, þjóð nokkur er hér komin af Egyptalandi, og þekur hún landið allt. Kom því og bið henni bölbæna fyrir mig. Vera má, að ég geti þá barist við hana og stökkt henni burt."`
12 En Guð sagði við Bíleam: "Eigi skalt þú fara með þeim, og eigi skalt þú bölva þessari þjóð, því að hún er blessuð."
13 Morguninn eftir reis Bíleam árla og sagði við höfðingja Balaks: "Farið heim í land yðar, því að Drottinn vill ekki leyfa mér að fara með yður."
14 Og höfðingjar Móabíta héldu af stað og komu til Balaks og sögðu: "Bíleam færðist undan að fara með oss."
15 Balak sendi þá enn höfðingja, fleiri og göfuglegri en þessir voru.
16 Og er þeir komu á fund Bíleams, sögðu þeir við hann: "Balak Sippórsson mælir svo: ,Lát þú ekkert aftra þér frá að koma á minn fund.
17 Ég vil veita þér mikla sæmd, og allt sem þú segir mér, skal ég gjöra. Kom því og bið lýð þessum bölbæna."`
18 En Bíleam svaraði og sagði við þjóna Balaks: "Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli, gæti ég samt ekki brugðið af boði Drottins, Guðs míns, hvorki í smáu né stóru.
19 En verið þér nú einnig hér í nótt, að ég megi vita, hvað Drottinn enn vill við mig tala."
20 Þá kom Guð til Bíleams um nóttina og sagði við hann: "Ef menn þessir eru komnir til að sækja þig, þá rís þú upp og far með þeim, og gjör þó það eitt, er ég býð þér."
21 Bíleam reis því árla um morguninn, söðlaði ösnu sína og fór með höfðingjum Móabíta.
17 Þegar vér komum til Jerúsalem, tóku bræðurnir oss feginsamlega.
18 Næsta dag gekk Páll með oss til Jakobs, og allir öldungarnir komu þangað.
19 Páll heilsaði þeim og lýsti síðan nákvæmlega öllu, sem Guð hafði gjört meðal heiðingjanna með þjónustu hans.
20 Þeir vegsömuðu Guð fyrir það, sem þeir heyrðu, og sögðu við hann: "Þú sérð, bróðir hve margir tugir þúsunda það eru meðal Gyðinga, sem trú hafa tekið, og allir eru þeir vandlátir um lögmálið.
21 En þeim hefur verið sagt, að þú kennir öllum Gyðingum, sem eru meðal heiðingja, að hverfa frá Móse og segir, að þeir skuli hvorki umskera börn sín né fylgja siðum vorum.
22 Hvað á nú að gjöra? Víst mun það spyrjast, að þú ert kominn.
23 Gjör því þetta, sem vér nú segjum þér. Hjá oss eru fjórir menn, sem heit hvílir á.
24 Tak þá með þér, lát hreinsast með þeim og ber kostnaðinn fyrir þá, að þeir geti látið raka höfuð sín. Þá mega allir sjá, að ekkert er hæft í því, sem þeim hefur verið sagt um þig, heldur gætir þú lögmálsins sjálfur í breytni þinni.
25 En um heiðingja, sem trú hafa tekið, höfum vér gefið út bréf og ályktað, að þeir skuli varast kjöt fórnað skurðgoðum, blóð, kjöt af köfnuðum dýrum og saurlifnað."
26 Páll tók að sér mennina og lét hreinsast með þeim daginn eftir. Síðan gekk hann inn í helgidóminn og gjörði kunnugt, hvenær hreinsunardagarnir væru á enda og fórnin fyrir hvern þeirra skyldi fram borin.
by Icelandic Bible Society