Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
15 Spámann mun Drottinn Guð þinn upp vekja meðal þín, af bræðrum þínum, slíkan sem ég er. Á hann skuluð þér hlýða.
16 Mun þannig fyllilega rætast það, er þú baðst Drottin Guð þinn um hjá Hóreb, daginn sem þér voruð þar saman komnir, er þú sagðir: "Eigi vildi ég lengur þurfa að heyra raust Drottins Guðs míns né oftar að sjá þennan mikla eld, svo að ég deyi ekki."
17 Þá sagði Drottinn við mig: "Vel er það mælt, sem þeir segja.
18 Ég vil upp vekja þeim spámann meðal bræðra þeirra, slíkan sem þú ert, og ég mun leggja honum mín orð í munn, og hann skal mæla til þeirra allt það, er ég býð honum.
19 Og hvern þann, er eigi vill hlýða á orð mín, þau er hann mun flytja í mínu nafni, hann mun ég krefja reikningsskapar.
20 En sá spámaður, sem dirfist að tala í mínu nafni það, er ég hefi eigi boðið honum að tala, og sá sem talar í nafni annarra guða, sá spámaður skal deyja.
111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.
2 Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.
3 Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.
5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.
6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.
7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,
8 örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.
9 Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.
10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.
8 Þá er að minnast á kjötið, sem fórnað hefur verið skurðgoðum. Vér vitum, að þekking höfum vér allir. Þekkingin blæs menn upp, en kærleikurinn byggir upp.
2 Ef einhver þykist hafa öðlast þekkingu á einhverju, þá þekkir hann enn ekki eins og þekkja ber.
3 En ef einhver elskar Guð, þá er hann þekktur af honum.
4 En hvað varðar neyslu kjöts, sem fórnað hefur verið skurðgoðum, þá vitum vér, að skurðgoð er ekkert í heiminum og að enginn er Guð nema einn.
5 Því að enda þótt til séu svo nefndir guðir, hvort heldur er á himni eða á jörðu, _ enda eru margir guðir og margir herrar _,
6 þá höfum vér ekki nema einn Guð, föðurinn, sem allir hlutir eru frá og líf vort stefnir til, og einn Drottin, Jesú Krist, sem allir hlutir eru til orðnir fyrir og vér fyrir hann.
7 En ekki hafa allir þessa þekkingu. Af gömlum vana eta nokkrir kjötið allt til þessa sem fórnarkjöt, og þá saurgast samviska þeirra, sem er óstyrk.
8 En matur mun ekki gjöra oss þóknanlega Guði. Hvorki missum vér neins, þótt vér etum það ekki, né ávinnum vér neitt, þótt vér etum.
9 En gætið þess, að þetta frelsi yðar verði ekki hinum óstyrku að falli.
10 Því sjái einhver þig, sem hefur þekkingu á þessu, sitja til borðs í goðahofi, mundi það ekki stæla samvisku þess, sem óstyrkur er, til að neyta fórnarkjöts?
11 Hinn óstyrki glatast þá vegna þekkingar þinnar, bróðirinn, sem Kristur dó fyrir.
12 Þegar þér þannig syndgið gegn bræðrunum og særið óstyrka samvisku þeirra, þá syndgið þér á móti Kristi.
13 Þess vegna mun ég, ef matur verður bróður mínum til falls, um aldur og ævi ekki kjöts neyta, til þess að ég verði bróður mínum ekki til falls.
21 Þeir komu til Kapernaum. Og hvíldardaginn gekk Jesús í samkunduna og kenndi.
22 Undruðust menn mjög kenningu hans, því að hann kenndi þeim eins og sá er vald hefur, og ekki eins og fræðimennirnir.
23 Þar var í samkundu þeirra maður haldinn óhreinum anda. Hann æpti:
24 "Hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs."
25 Jesús hastaði þá á hann og mælti: "Þegi þú, og far út af honum."
26 Þá teygði óhreini andinn manninn, rak upp hljóð mikið og fór út af honum.
27 Sló felmtri á alla, og hver spurði annan: "Hvað er þetta? Ný kenning með valdi! Hann skipar jafnvel óhreinum öndum og þeir hlýða honum."
28 Og orðstír hans barst þegar um alla Galíleu.
by Icelandic Bible Society