Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 111

111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.

Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.

Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.

Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.

Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.

Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,

örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.

Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.

10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.

Fimmta bók Móse 13:1-5

13 Ef spámaður eða draumamaður rís upp meðal yðar og boðar þér tákn eða undur,

og táknið eða undrið rætist, það er hann hafði boðað þér og sagt um leið: "Vér skulum snúa oss til annarra guða (þeirra er þú hefir eigi þekkt), og vér skulum dýrka þá!"

þá skalt þú ekki hlýða á orð þess spámanns eða draumamanns, því að Drottinn Guð yðar reynir yður til þess að vita, hvort þér elskið Drottin Guð yðar af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar.

Drottni Guði yðar skuluð þér fylgja og hann skuluð þér óttast, og skipanir hans skuluð þér varðveita og raustu hans skuluð þér hlýða, og hann skuluð þér dýrka og við hann skuluð þér halda yður fast.

En spámann þann eða draumamann skal deyða, því að hann hefir prédikað uppreisn gegn Drottni Guði yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi og leysti þig úr þrælahúsinu, til þess að tæla þig burt af þeim vegi, sem Drottinn Guð þinn bauð þér að ganga. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.

Matteusarguðspjall 8:28-9:1

28 Þegar hann kom yfir um, í byggð Gadarena, komu á móti honum frá gröfunum tveir menn haldnir illum öndum, svo skæðir, að enginn mátti þann veg fara.

29 Þeir æpa: "Hvað vilt þú okkur, sonur Guðs? Komstu hingað að kvelja okkur fyrir tímann?"

30 En langt frá þeim var mikil svínahjörð á beit.

31 Illu andarnir báðu hann og sögðu: "Ef þú rekur okkur út, sendu okkur þá í svínahjörðina."

32 Hann sagði: "Farið!" Út fóru þeir og í svínin, og öll hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og týndist þar.

33 En hirðarnir flýðu, komu til borgarinnar og sögðu öll tíðindin, líka frá mönnunum, sem haldnir voru illum öndum.

34 Og allir borgarmenn fóru út til móts við Jesú, og þegar þeir sáu hann, báðu þeir hann að fara burt úr héruðum þeirra.

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society