Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 111

111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.

Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.

Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.

Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.

Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.

Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,

örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.

Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.

10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.

Fimmta bók Móse 12:28-32

28 Varðveit þú og hlýð þú öllum þessum boðorðum, sem ég legg fyrir þig, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig ævinlega, er þú gjörir það, sem gott er og rétt í augum Drottins Guðs þíns.

29 Þegar Drottinn Guð þinn upprætir þær þjóðir fyrir þér, er þú heldur nú til, til þess að leggja þær undir þig, og er þú hefir lagt þær undir þig og ert setstur að í landi þeirra,

30 þá gæt þín, að þú freistist ekki til þess að taka upp siðu þeirra, eftir að þeir eru eyddir burt frá þér, og að þú farir ekki að spyrjast fyrir um guði þeirra og segja: "Hvernig dýrkuðu þessar þjóðir guði sína, svo að ég geti og farið eins að?"

31 Þú skalt eigi breyta svo við Drottin Guð þinn, því að allt sem andstyggilegt er Drottni, það er hann hatar, hafa þær gjört til heiðurs guðum sínum, því að jafnvel sonu sína og dætur hafa þær brennt í eldi til heiðurs guðum sínum.

32 Þér skuluð gæta þess að halda öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður. Þú skalt engu auka við þau né heldur draga nokkuð undan.

Opinberun Jóhannesar 2:12-17

12 Og engli safnaðarins í Pergamos skalt þú rita: Þetta segir sá sem hefur sverðið tvíeggjaða og bitra:

13 Ég veit hvar þú býrð, þar sem hásæti Satans er. Þú heldur stöðugt við nafn mitt og afneitar ekki trúnni á mig, jafnvel ekki á dögum Antípasar, míns trúa vottar, sem deyddur var hjá yður, þar sem Satan býr.

14 En þó hef ég nokkuð á móti þér. Þú hefur hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Bíleams, þess er kenndi Balak að tæla Ísraelsmenn, svo að þeir neyttu kjöts, sem helgað var skurðgoðum, og drýgðu hór.

15 Þannig hefur þú líka hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Nikólaíta.

16 Gjör því iðrun! Að öðrum kosti kem ég skjótt til þín og mun berjast við þá með sverði munns míns.

17 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun ég gefa af hinu hulda "manna", og ég mun gefa honum hvítan stein, og á steininn ritað nýtt nafn, sem enginn þekkir nema sá, er við tekur.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society