Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 111

111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.

Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.

Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.

Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.

Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.

Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,

örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.

Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.

10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.

Fimmta bók Móse 3:23-29

23 Þá bað ég Drottin líknar og sagði:

24 "Ó Drottinn Guð! Þú hefir nú þegar sýnt þjóni þínum, hve mikill þú ert og hve sterk hönd þín er, því að hver er sá guð á himni eða jörðu, sem gjöri önnur eins verk og þú og jafnmikil máttarverk?

25 Æ, leyf mér að fara yfir um og sjá landið góða, sem er hinumegin Jórdanar, þetta fagra fjalllendi og Líbanon."

26 En Drottinn reiddist mér yðar vegna og bænheyrði mig ekki, og Drottinn sagði við mig: "Nóg um það. Tala eigi meira um þetta mál við mig.

27 Far þú upp á Pisgatind og horf þú í vestur, norður, suður og austur og lít það með augum þínum, því að þú munt ekki komast yfir hana Jórdan.

28 En skipa þú Jósúa foringja og tel hug í hann og gjör hann öruggan, því að hann skal fara yfir um fyrir þessu fólki og hann skal skipta milli þeirra landinu, sem þú sér."

29 Dvöldum vér nú um hríð í dalnum á móts við Bet Peór.

Bréf Páls til Rómverja 9:6-18

Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist. Því að ekki eru allir þeir Ísraelsmenn, sem af Ísrael eru komnir.

Ekki eru heldur allir börn Abrahams, þótt þeir séu niðjar hans, heldur: "Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir."

Það merkir: Ekki eru líkamlegir afkomendur hans Guðs börn, heldur teljast fyrirheitsbörnin sannir niðjar.

Því að þetta orð er fyrirheit: "Í þetta mund mun ég aftur koma, og þá skal Sara hafa son alið."

10 Og ekki nóg með það. Því var líka svo farið með Rebekku. Hún var þunguð að tveim sveinum af eins manns völdum, Ísaks föður vors.

11 Nú, til þess að það stæði stöðugt, að ákvörðun Guðs um útvalningu væri óháð verkunum og öll komin undir vilja þess, er kallar,

12 þá var henni sagt, áður en sveinarnir voru fæddir og áður en þeir höfðu aðhafst gott eða illt: "Hinn eldri skal þjóna hinum yngri."

13 Eins og ritað er: "Jakob elskaði ég, en Esaú hataði ég."

14 Hvað eigum vér þá að segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því.

15 Því hann segir við Móse: "Ég mun miskunna þeim, sem ég vil miskunna, og líkna þeim, sem ég vil líkna."

16 Það er því ekki komið undir vilja mannsins né áreynslu, heldur Guði, sem miskunnar.

17 Því er í Ritningunni sagt við Faraó: "Einmitt til þess hóf ég þig, að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina."

18 Svo miskunnar hann þá þeim, sem hann vill, en forherðir þann, sem hann vill.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society