Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 46

46 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.

Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.

Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins.

Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela]

Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta.

Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi.

Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu, raust hans þrumaði, jörðin nötraði.

Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.

10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.

11 "Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð, hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu."

12 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Fyrsta bók Móse 45:25-46:7

25 Og þeir fóru frá Egyptalandi og komu til Kanaanlands, heim til Jakobs föður síns.

26 Og þeir færðu honum tíðindin og sögðu: "Jósef er enn á lífi og er höfðingi yfir öllu Egyptalandi." En hjarta hans komst ekki við, því að hann trúði þeim ekki.

27 En er þeir báru honum öll orð Jósefs, sem hann hafði við þá talað, og hann sá vagnana, sem Jósef hafði sent til að flytja hann á, þá lifnaði yfir Jakob föður þeirra.

28 Og Ísrael sagði: "Mér er það nóg, að Jósef sonur minn er enn á lífi. Ég vil fara og sjá hann áður en ég dey."

46 Ísrael lagði af stað með allt sitt, og hann kom til Beerseba og færði þar Guði Ísaks föður síns sláturfórn.

Og Guð talaði við Ísrael í sýn um nóttina og sagði: "Jakob, Jakob!" Og hann svaraði: "Hér er ég."

Og hann sagði: "Ég er Guð, Guð föður þíns. Óttast þú ekki að fara til Egyptalands, því að þar mun ég gjöra þig að mikilli þjóð.

Ég mun fara með þér til Egyptalands, og ég mun líka flytja þig þaðan aftur, og Jósef skal veita þér nábjargirnar."

Þá tók Jakob sig upp frá Beerseba, og Ísraels synir fluttu Jakob föður sinn og börn sín og konur sínar á vögnunum, sem Faraó hafði sent til að flytja hann á.

Og þeir tóku fénað sinn og fjárhluti, sem þeir höfðu aflað sér í Kanaanlandi, og komu til Egyptalands, Jakob og allir niðjar hans með honum.

Sonu sína og sonasonu, dætur sínar og sonadætur og alla niðja sína flutti hann með sér til Egyptalands.

Postulasagan 5:33-42

33 Þegar þeir heyrðu þetta, fylltust þeir bræði og hugðust deyða þá.

34 Reis þá upp í ráðinu farísei nokkur, Gamalíel að nafni, kennari í lögmálinu, virtur af öllum lýð. Hann bauð, að mennirnir væru látnir fara út stundarkorn.

35 Síðan sagði hann: "Ísraelsmenn, athugið vel, hvað þér gjörið við þessa menn.

36 Ekki alls fyrir löngu kom Þevdas fram og þóttist vera eitthvað. Hann aðhylltust um fjögur hundruð manns. En hann var drepinn, og allir þeir, sem fylgdu honum, tvístruðust og hurfu.

37 Eftir hann kom fram Júdas frá Galíleu á dögum skrásetningarinnar og sneri fólki til fylgis við sig. Hann fórst líka, og þeir dreifðust allir, sem fylgdu honum.

38 Og nú segi ég yður: Látið þessa menn eiga sig og sleppið þeim. Sé þetta ráð eða verk frá mönnum, verður það að engu,

39 en sé það frá Guði, þá megnið þér ekki að yfirbuga þá. Eigi má það verða, að þér berjist við sjálfan Guð."

40 Þeir féllust á mál hans, kölluðu á postulana, húðstrýktu þá, fyrirbuðu þeim að tala í Jesú nafni og létu þá síðan lausa.

41 Þeir fóru burt frá ráðinu, glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú.

42 Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society