Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 46

46 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.

Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.

Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins.

Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela]

Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta.

Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi.

Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu, raust hans þrumaði, jörðin nötraði.

Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.

10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.

11 "Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð, hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu."

12 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Fyrsta bók Móse 12:1-9

12 Drottinn sagði við Abram: "Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á.

Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera.

Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta."

Þá lagði Abram af stað, eins og Drottinn hafði sagt honum, og Lot fór með honum. En Abram var sjötíu og fimm ára að aldri, er hann fór úr Harran.

Abram tók Saraí konu sína og Lot bróðurson sinn og alla fjárhluti, sem þeir höfðu eignast, og þær sálir, er þeir höfðu fengið í Harran. Og þeir lögðu af stað og héldu til Kanaanlands. Þeir komu til Kanaanlands.

Og Abram fór um landið, allt þangað er Síkem heitir, allt til Mórelundar. En þá voru Kanaanítar í landinu.

Þá birtist Drottinn Abram og sagði við hann: "Niðjum þínum vil ég gefa þetta land." Og hann reisti þar altari Drottni, sem hafði birst honum.

Þaðan hélt hann til fjallanna fyrir austan Betel og setti þar tjöld sín, svo að Betel var í vestur, en Aí í austur. Og hann reisti þar Drottni altari og ákallaði nafn Drottins.

Og Abram færði sig smátt og smátt til Suðurlandsins.

Fyrra bréf Páls til Korin 7:17-24

17 Þó skal hver og einn vera í þeirri stöðu, sem Drottinn hefur úthlutað honum, eins og hann var, þegar Guð kallaði hann. Þannig skipa ég fyrir í öllum söfnuðunum.

18 Sá sem var umskorinn, þegar hann var kallaður, breyti því ekki. Sá sem var óumskorinn, láti ekki umskera sig.

19 Umskurnin er ekkert og yfirhúðin ekkert, heldur það að halda boðorð Guðs.

20 Hver og einn sé kyrr í þeirri stöðu, sem hann var kallaður í.

21 Varst þú þræll, er þú varst kallaður? Set það ekki fyrir þig, en gjör þér gott úr því, en ef þú getur orðið frjáls, þá kjós það heldur.

22 Því að sá þræll, sem kallaður er í Drottni, er frelsingi Drottins. Á sama hátt er sá, sem kallaður er sem frjáls, þræll Krists.

23 Þér eruð verði keyptir, verðið ekki þrælar manna.

24 Bræður, sérhver verði frammi fyrir Guði kyrr í þeirri stétt, sem hann var kallaður í.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society