Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 86

86 Davíðs-bæn. Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður.

Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér.

Ver mér náðugur, Drottinn, því þig ákalla ég allan daginn.

Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína.

Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.

Hlýð, Drottinn, á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni.

Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.

Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk.

Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt.

10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!

11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.

12 Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu,

13 því að miskunn þín er mikil við mig, og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar.

14 Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð, og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu, eigi hafa þeir þig fyrir augum.

15 En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur.

16 Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar.

17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.

Fyrsta bók Móse 16:1-14

16 Saraí kona Abrams ól honum ekki börn. En hún hafði egypska ambátt, sem hét Hagar.

Og Saraí sagði við Abram: "Heyrðu, Drottinn hefir varnað mér barngetnaðar. Gakk því inn til ambáttar minnar, vera má að hún afli mér afkvæmis." Og Abram hlýddi orðum Saraí.

Saraí, kona Abrams, tók Hagar hina egypsku, ambátt sína, er Abram hafði búið tíu ár í Kanaanlandi, og gaf manni sínum Abram hana fyrir konu.

Og hann gekk inn til Hagar, og hún varð þunguð. En er hún vissi, að hún var með barni, fyrirleit hún húsmóður sína.

Þá sagði Saraí við Abram: "Sá óréttur, sem ég verð að þola, bitni á þér! Ég hefi gefið ambátt mína þér í faðm, en er hún nú veit, að hún er með barni, fyrirlítur hún mig. Drottinn dæmi milli mín og þín!"

En Abram sagði við Saraí: "Sjá, ambátt þín er á þínu valdi. Gjör þú við hana sem þér gott þykir." Þá þjáði Saraí hana, svo að hún flýði í burtu frá henni.

Þá fann engill Drottins hana hjá vatnslind í eyðimörkinni, hjá lindinni á veginum til Súr.

Og hann mælti: "Hagar, ambátt Saraí, hvaðan kemur þú og hvert ætlar þú að fara?" Hún svaraði: "Ég er á flótta frá Saraí, húsmóður minni."

Og engill Drottins sagði við hana: "Hverf þú heim aftur til húsmóður þinnar og gef þig undir hennar vald."

10 Engill Drottins sagði við hana: "Ég mun margfalda afkvæmi þitt, svo að það verði eigi talið fyrir fjölda sakir."

11 Engill Drottins sagði við hana: "Sjá, þú ert þunguð og munt son fæða. Hans nafn skalt þú kalla Ísmael, því að Drottinn hefir heyrt kveinstafi þína.

12 Hann mun verða maður ólmur sem villiasni, hönd hans mun vera uppi á móti hverjum manni og hvers manns hönd uppi á móti honum, og hann mun búa andspænis öllum bræðrum sínum."

13 Og hún nefndi Drottin, sem við hana talaði, "Þú ert Guð, sem sér." Því að hún sagði: "Ætli ég hafi einnig hér horft á eftir honum, sem hefir séð mig?"

14 Þess vegna heitir brunnurinn Beer-lahaj-róí, en hann er á milli Kades og Bered.

Lúkasarguðspjall 18:15-17

15 Menn færðu og til hans ungbörnin, að hann snerti þau. Lærisveinarnir sáu það og átöldu þá.

16 En Jesús kallaði þau til sín og mælti: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.

17 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society