Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
86 Davíðs-bæn. Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður.
2 Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér.
3 Ver mér náðugur, Drottinn, því þig ákalla ég allan daginn.
4 Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína.
5 Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.
6 Hlýð, Drottinn, á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni.
7 Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.
8 Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn, og ekkert er sem þín verk.
9 Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn, og tigna nafn þitt.
10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.
12 Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu,
13 því að miskunn þín er mikil við mig, og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar.
14 Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð, og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu, eigi hafa þeir þig fyrir augum.
15 En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur.
16 Snú þér að mér og ver mér náðugur, veit þjóni þínum kraft þinn og hjálpa syni ambáttar þinnar.
17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig, að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir, að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.
27 En er þeir voru komnir út fyrir borgina, sagði Samúel við Sál: "Segðu sveininum að fara á undan okkur, _ og hann fór á undan _ en statt þú kyrr, svo að ég megi flytja þér orð frá Guði."
10 Þá tók Samúel buðk með olífuolíu og hellti yfir höfuð honum og minntist við hann og mælti: "Nú hefir Drottinn smurt þig til höfðingja yfir lýð sinn Ísrael, og þú skalt drottna yfir lýð Drottins og þú skalt frelsa hann af hendi óvina hans. Og þetta skalt þú til marks hafa um, að Drottinn hefir smurt þig til höfðingja yfir arfleifð sína:
2 Þegar þú ert farinn frá mér í dag, munt þú hitta tvo menn við gröf Rakelar á Benjamíns landamærum hjá Selsa, og þeir munu segja við þig: ,Ösnurnar, sem þú fórst að leita að, eru fundnar. En faðir þinn er hættur að hugsa um ösnurnar og farinn að undrast um ykkur og segir: Hvað á ég að gjöra viðvíkjandi syni mínum?`
3 Og þegar þú nú heldur áfram þaðan og kemur að Taboreik, þá munu þrír menn mæta þér þar, sem eru á leið upp til Guðs í Betel. Einn þeirra ber þrjú kið, annar ber þrjá brauðhleifa og hinn þriðji ber vínlegil.
4 Þeir munu heilsa þér og gefa þér tvö brauð; skalt þú þiggja þau af þeim.
5 Eftir það munt þú koma til Gíbeu Guðs, þar sem súla Filista stendur. Og þegar þú kemur inn í borgina, þá munt þú mæta hóp spámanna, sem eru á leið ofan af fórnarhæðinni með hörpur, bumbur, hljóðpípur og gígjur á undan sér og sjálfir eru í spámannlegum guðmóði.
6 Þá mun andi Drottins koma yfir þig, svo að þú munt komast í spámannlegan guðmóð með þeim og verða annar maður.
7 Og þegar þú sér þessi tákn koma fram, þá neyt þess færis, sem þér býðst, því að Guð er með þér.
8 Og þú skalt fara á undan mér ofan til Gilgal. Og sjá, ég mun koma heim til þín og bera fram brennifórnir og fórna heillafórnum. Þú skalt bíða í sjö daga, þar til er ég kem til þín, og þá skal ég láta þig vita, hvað þú átt að gjöra."
14 Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur?
15 Hver er samhljóðan Krists við Belíar? Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum?
16 Hvernig má sætta musteri Guðs við skurðgoð? Vér erum musteri lifanda Guðs, eins og Guð hefur sagt: Ég mun búa hjá þeim og ganga um meðal þeirra, og ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn.
17 Þess vegna segir Drottinn: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér
18 og ég mun vera yður faðir, og þér munuð vera mér synir og dætur, segir Drottinn alvaldur.
7 Þar eð vér því höfum þessi fyrirheit, elskaðir, þá hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.
by Icelandic Bible Society