Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrri Samúelsbók 3:1-10

Sveinninn Samúel gegndi þjónustu Drottins hjá Elí. Orð frá Drottni var sjaldgæft á þeim dögum, vitranir voru þá fátíðar.

Þá bar svo til einn dag, að Elí svaf á sínum vanalega stað. En augu hans voru tekin að daprast, svo að hann var hættur að sjá,

og enn var ekki slokknað á Guðs lampa, en Samúel svaf í musteri Drottins, þar sem Guðs örk var.

Þá kallaði Drottinn á Samúel. Hann svaraði: "Hér er ég."

Og hann hljóp til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." En Elí sagði: "Ég hefi ekki kallað. Far þú aftur að sofa." Fór hann þá og lagðist til svefns.

En Drottinn kallaði enn að nýju: "Samúel!" Og Samúel reis upp og fór til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." En hann sagði: "Ég hefi ekki kallað, sonur minn. Leggst þú aftur til svefns."

En Samúel þekkti ekki enn Drottin, og honum hafði ekki enn birst orð frá Drottni.

Þá kallaði Drottinn enn á Samúel, í þriðja skiptið. Og hann reis upp og fór til Elí og sagði: "Hér er ég, því að þú kallaðir á mig." Þá skildi Elí, að það var Drottinn, sem var að kalla á sveininn.

Fyrir því sagði Elí við Samúel: "Far þú og leggstu til svefns, og verði nú á þig kallað, þá svara þú: ,Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir."` Fór Samúel þá og lagðist til svefns á sínum stað.

10 Þá kom Drottinn og gekk fram og kallaði sem hin fyrri skiptin: "Samúel! Samúel!" Og Samúel svaraði: "Tala þú, því að þjónn þinn heyrir."

Fyrri Samúelsbók 3:11-20

11 Drottinn mælti þá við Samúel: "Þá hluti mun ég gjöra í Ísrael, að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra.

12 Á þeim degi mun ég láta fram koma á Elí allt það, er ég hefi talað um hús hans _ frá upphafi til enda.

13 Því að ég hefi kunngjört honum, að ég muni dæma hús hans að eilífu vegna misgjörðar þeirrar, er honum var kunn, að synir hans leiddu bölvun yfir sig, og þó hafði hann ekki taum á þeim.

14 Og fyrir því hefi ég svarið húsi Elí: Sannlega skal eigi verða friðþægt fyrir misgjörð Elí húss með sláturfórn eða matfórn að eilífu."

15 Lá Samúel nú kyrr allt til morguns. Og um morguninn reis hann árla og lauk upp dyrunum á húsi Drottins. En Samúel þorði ekki að segja Elí frá sýninni.

16 Elí kallaði á Samúel og sagði: "Samúel, sonur minn!" Hann svaraði: "Hér er ég."

17 Elí sagði: "Hvað var það, sem hann talaði við þig? Leyndu mig því ekki. Guð láti þig gjalda þess nú og síðar, ef þú leynir mig nokkru af því, sem hann talaði við þig."

18 Þá sagði Samúel honum allt saman og leyndi hann engu. En Elí sagði: "Hann er Drottinn. Gjöri hann það, sem honum þóknast!"

19 Samúel óx, og Drottinn var með honum og lét ekkert af því, er hann hafði boðað, falla til jarðar.

20 Og allur Ísrael frá Dan til Beerseba kannaðist við, að Samúel væri falið að vera spámaður Drottins.

Sálmarnir 139:1-6

139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.

Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.

Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.

Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.

Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.

Sálmarnir 139:13-18

13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.

14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.

15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.

16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.

17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.

18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.

Fyrra bréf Páls til Korin 6:12-20

12 Allt er mér leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er mér leyfilegt, en ég má ekki láta neitt fá vald yfir mér.

13 Maturinn er fyrir magann og maginn fyrir matinn, en Guð mun hvort tveggja að engu gjöra. En líkaminn er ekki fyrir saurlífi, heldur fyrir Drottin og Drottinn fyrir líkamann.

14 Guð hefur uppvakið Drottin og mun uppvekja oss fyrir kraft sinn.

15 Vitið þér ekki, að líkamir yðar eru limir Krists? Á ég þá að taka limi Krists og gjöra þá að skækjulimum? Fjarri fer því.

16 Vitið þér ekki, að sá er samlagar sig skækjunni verður ásamt henni einn líkami? Því að sagt er: "Þau tvö munu verða eitt hold."

17 En sá er samlagar sig Drottni er einn andi ásamt honum.

18 Flýið saurlifnaðinn! Sérhver önnur synd, sem maðurinn drýgir, er fyrir utan líkama hans. En saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama.

19 Vitið þér ekki, að líkami yðar er musteri heilags anda, sem í yður er og þér hafið frá Guði? Og ekki eruð þér yðar eigin.

20 Þér eruð verði keyptir. Vegsamið því Guð með líkama yðar.

Jóhannesarguðspjall 1:43-51

43 Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: "Fylg þú mér!"

44 Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur.

45 Filippus fann Natanael og sagði við hann: "Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs."

46 Natanael sagði: "Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?" Filippus svaraði: "Kom þú og sjá."

47 Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: "Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í."

48 Natanael spyr: "Hvaðan þekkir þú mig?" Jesús svarar: "Ég sá þig undir fíkjutrénu, áður en Filippus kallaði á þig."

49 Þá segir Natanael: "Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels."

50 Jesús spyr hann: "Trúir þú, af því að ég sagði við þig: ,Ég sá þig undir fíkjutrénu`? Þú munt sjá það, sem þessu er meira."

51 Og hann segir við hann: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society