Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.
4 Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
5 Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.
6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.
14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.
15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.
16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.
17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.
18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.
21 Og Drottinn vitjaði Hönnu, og hún varð þunguð og fæddi þrjá sonu og tvær dætur. En sveinninn Samúel óx upp hjá Drottni.
22 Elí gjörðist mjög gamall og heyrði allt um það, hvernig synir hans fóru með allan Ísrael og að þeir legðust með konum þeim, sem gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins.
23 Og hann sagði við þá: "Hvers vegna hegðið þið ykkur svo? Því að ég hefi heyrt allan þennan lýð tala um illt athæfi ykkar.
24 Eigi má svo vera, synir mínir! Það er ekki fallegur orðrómur, sem ég heyri lýð Drottins vera að breiða út.
25 Syndgi maður á móti öðrum manni, þá sker Guð úr, en syndgi maður móti Drottni, hver má þá biðja honum líknar?" En þeir hlýddu ekki orðum föður síns, því að Drottinn vildi deyða þá.
25 Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína.
2 Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar.
3 Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér,
4 en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum.
5 Nú dvaldist brúðgumanum, og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.
6 Um miðnætti kvað við hróp: ,Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann.`
7 Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína.
8 En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: ,Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum.`
9 Þær hyggnu svöruðu: ,Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.`
10 Meðan þær voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað.
11 Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: ,Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.`
12 En hann svaraði: ,Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.`
13 Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.
by Icelandic Bible Society