Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 139:1-6

139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.

Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.

Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.

Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.

Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.

Sálmarnir 139:13-18

13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.

14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.

15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.

16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.

17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.

18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.

Dómarabókin 2:16-23

16 En Drottinn vakti upp dómara, og þeir frelsuðu þá úr höndum þeirra, er þá rændu.

17 En þeir hlýddu ekki heldur dómurum sínum, heldur tóku fram hjá með öðrum guðum og féllu fram fyrir þeim. Þeir viku brátt af vegi feðra sinna, sem hlýddu boðum Drottins; þeir breyttu ekki svo.

18 Þegar Drottinn vakti þeim upp dómara, þá var Drottinn með dómaranum og frelsaði þá úr höndum óvina þeirra á meðan dómarinn var á lífi, því að Drottinn kenndi í brjósti um þá, er þeir kveinuðu undan kúgurum sínum og kvölurum.

19 En er dómarinn andaðist, breyttu þeir að nýju verr en feður þeirra, með því að elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim. Þeir létu eigi af gjörðum sínum né þrjóskubreytni sinni.

20 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael og hann sagði: "Af því að þetta fólk hefir rofið sáttmála minn, þann er ég lagði fyrir feður þeirra, og ekki hlýtt minni raustu,

21 þá mun ég ekki heldur framar stökkva burt undan þeim nokkrum manni af þjóðum þeim, sem Jósúa skildi eftir, er hann andaðist.

22 Ég vil reyna Ísrael með þeim, hvort þeir varðveita veg Drottins og ganga hann, eins og feður þeirra gjörðu, eða ekki."

23 Þannig lét Drottinn þjóðir þessar vera kyrrar án þess að reka þær burt bráðlega, og hann gaf þær eigi í hendur Jósúa.

Postulasagan 13:16-25

16 Þá stóð Páll upp, benti til hljóðs með hendinni og sagði: "Ísraelsmenn og aðrir þér, sem óttist Guð, hlýðið á.

17 Guð lýðs þessa, Ísraels, útvaldi feður vora og hóf upp lýðinn í útlegðinni í Egyptalandi. Með upplyftum armi leiddi hann þá út þaðan.

18 Og um fjörutíu ára skeið fóstraði hann þá í eyðimörkinni.

19 Hann stökkti burt sjö þjóðum úr Kanaanslandi og gaf þeim land þeirra til eignar.

20 Svo stóð um fjögur hundruð og fimmtíu ára skeið. Eftir þetta gaf hann þeim dómara allt til Samúels spámanns.

21 Síðan báðu þeir um konung, og Guð gaf þeim Sál Kísson, mann af Benjamíns ætt. Hann ríkti í fjörutíu ár.

22 Þegar Guð hafði sett hann af, hóf hann Davíð til konungs yfir þeim. Um hann vitnaði hann: ,Ég hef fundið Davíð, son Ísaí, mann eftir mínu hjarta, er gjöra mun allan vilja minn.`

23 Af kyni hans sendi Guð Ísrael frelsara, Jesú, samkvæmt fyrirheiti.

24 En áður en hann kom fram, boðaði Jóhannes öllum Ísraelslýð iðrunarskírn.

25 Þegar Jóhannes var að enda skeið sitt, sagði hann: ,Hvern hyggið þér mig vera? Ekki er ég hann. Annar kemur eftir mig, og er ég eigi verður þess að leysa skó af fótum honum.`

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society