Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
69 Til söngstjórans. Liljulag. Davíðssálmur.
2 Hjálpa mér, ó Guð, því að vötnin ætla að drekkja mér.
3 Ég er sokkinn niður í botnlausa leðju og hefi enga fótfestu, ég er kominn ofan í vatnadjúp og bylgjurnar ganga yfir mig.
4 Ég hefi æpt mig þreyttan, er orðinn brennandi þurr í kverkunum, augu mín eru döpruð orðin af að þreyja eftir Guði mínum.
5 Fleiri en hárin á höfði mér eru þeir er hata mig að ástæðulausu, fleiri en bein mín þeir sem án saka eru óvinir mínir. Því sem ég hefi eigi rænt, hefi ég samt orðið að skila aftur.
30 En ég er volaður og þjáður, hjálp þín, ó Guð, mun bjarga mér.
31 Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það í lofsöng.
32 Það mun Drottni líka betur en uxar, ungneyti með hornum og klaufum.
33 Hinir auðmjúku sjá það og gleðjast, þér sem leitið Guðs _ hjörtu yðar lifni við.
34 Því að Drottinn hlustar á hina fátæku og fyrirlítur eigi bandingja sína.
35 Hann skulu lofa himinn og jörð, höfin og allt sem í þeim hrærist.
36 Því að Guð veitir Síon hjálp og reisir við borgirnar í Júda, og menn skulu búa þar og fá landið til eignar.
22 Drottinn talaði við Móse og sagði:
23 "Tak þér hinar ágætustu kryddjurtir, fimm hundruð sikla af sjálfrunninni myrru, hálfu minna, eða tvö hundruð og fimmtíu sikla, af ilmandi kanelberki og tvö hundruð og fimmtíu sikla af ilmreyr,
24 og fimm hundruð sikla af kanelviði eftir helgidómssikli og eina hín af olífuberjaolíu.
25 Af þessu skalt þú gjöra heilaga smurningarolíu, ilmsmyrsl, til búin að hætti smyrslara. Skal það vera heilög smurningarolía.
26 Með þessu skalt þú smyrja samfundatjaldið og sáttmálsörkina,
27 borðið með öllum áhöldum þess, ljósastikuna með öllum áhöldum hennar og reykelsisaltarið,
28 brennifórnaraltarið með öllum áhöldum þess, kerið og stétt þess.
29 Og skalt þú vígja þau, svo að þau verði háheilög. Hver sem snertir þau, skal vera helgaður.
30 Þú skalt og smyrja Aron og sonu hans og vígja þá til að þjóna mér í prestsembætti.
31 Þú skalt tala til Ísraelsmanna og segja: ,Þetta skal vera mér heilög smurningarolía hjá yður frá kyni til kyns.`
32 Eigi má dreypa henni á nokkurs manns hörund, og með sömu gerð skuluð þér eigi til búa nein smyrsl. Helg er hún, og helg skal hún yður vera.
33 Hver sem býr til sams konar smyrsl eða ber nokkuð af þeim á óvígðan mann, skal upprættur verða úr þjóð sinni."
34 Drottinn sagði við Móse: "Tak þér ilmjurtir, balsam, marnögl og galbankvoðu, ilmjurtir ásamt hreinu reykelsi. Skal vera jafnt af hverju.
35 Og þú skalt búa til úr því ilmreykelsi að hætti smyrslara, salti kryddað, hreint og heilagt.
36 Og nokkuð af því skalt þú mylja smátt og leggja það fyrir framan sáttmálið í samfundatjaldinu, þar sem ég vil eiga samfundi við þig. Það skal vera yður háheilagt.
37 Reykelsi, eins og þú til býr með þessari gerð, megið þér ekki búa til handa yður sjálfum. Skalt þú meta það sem Drottni helgað.
38 Skyldi einhver búa til nokkuð þvílíkt til þess að gæða sér með ilm þess, skal hann upprættur verða úr þjóð sinni."
2 En er þeir heyrðu hann ávarpa sig á hebresku, urðu þeir enn hljóðari. Hann heldur áfram:
3 "Ég er Gyðingur, fæddur í Tarsus í Kilikíu, en alinn upp í þessari borg. Við fætur Gamalíels hlaut ég fyllstu uppfræðslu í lögmáli feðra vorra. Guðs stríðsmaður vildi ég vera ekki síður en þér allir í dag.
4 Ég ofsótti þá, sem voru þessa vegar, og sparði ekki líf þeirra, færði í fjötra og hneppti í fangelsi karla og konur.
5 Æðsti presturinn og allt öldungaráðið geta borið mér vitni um þetta. Hjá þeim fékk ég bréf til bræðranna í Damaskus og fór þangað til að flytja einnig þá, er þar voru, í böndum til Jerúsalem, að þeim yrði refsað.
6 En á leiðinni, er ég nálgaðist Damaskus, bar svo við um hádegisbil, að ljós mikið af himni leiftraði skyndilega um mig.
7 Ég féll til jarðar og heyrði raust, er sagði við mig: ,Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?`
8 Ég svaraði: ,Hver ert þú, herra?` Og hann sagði við mig: ,Ég er Jesús frá Nasaret, sem þú ofsækir.`
9 Þeir, sem með mér voru, sáu ljósið, en raust þess, er við mig talaði, heyrðu þeir ekki.
10 Þá sagði ég: ,Hvað á ég að gjöra, herra?` En Drottinn sagði við mig: ,Rís upp og far til Damaskus. Þar mun þér verða sagt allt, sem þér er ætlað að gjöra.`
11 En með því að ég var blindaður af ljóma þessa ljóss, urðu förunautar mínir að leiða mig, og þannig komst ég til Damaskus.
12 En Ananías nokkur, maður guðrækinn eftir lögmálinu og í góðum metum hjá öllum Gyðingum, er þar bjuggu,
13 kom til mín, nam staðar hjá mér og sagði: ,Sál, bróðir, fá þú aftur sjón þína!` Á sömu stundu fékk ég sjónina og sá hann.
14 En hann sagði: ,Guð feðra vorra hefur útvalið þig til að þekkja vilja sinn, að sjá hinn réttláta og heyra raustina af munni hans.
15 Því að þú skalt honum vottur vera hjá öllum mönnum um það, sem þú hefur séð og heyrt.
16 Hvað dvelur þig nú? Rís upp, ákalla nafn hans og lát skírast og laugast af syndum þínum.`
by Icelandic Bible Society