Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
1 Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.
2 Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum.
3 Guð sagði: "Verði ljós!" Og það varð ljós.
4 Guð sá, að ljósið var gott, og Guð greindi ljósið frá myrkrinu.
5 Og Guð kallaði ljósið dag, en myrkrið kallaði hann nótt. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur.
29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.
2 Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.
3 Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.
4 Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.
5 Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.
6 Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.
7 Raust Drottins klýfur eldsloga.
8 Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.
9 Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!
10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.
11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.
19 Meðan Apollós var í Korintu, fór Páll um upplöndin og kom til Efesus. Þar hitti hann fyrir nokkra lærisveina.
2 Hann sagði við þá: "Fenguð þér heilagan anda, er þér tókuð trú?" Þeir svöruðu: "Nei, vér höfum ekki einu sinni heyrt, að heilagur andi sé til."
3 Hann sagði: "Upp á hvað eruð þér þá skírðir?" Þeir sögðu: "Skírn Jóhannesar."
4 Þá mælti Páll: "Jóhannes skírði iðrunarskírn og sagði lýðnum að trúa á þann, sem eftir sig kæmi, það er á Jesú."
5 Þegar þeir heyrðu þetta, létu þeir skírast til nafns Drottins Jesú.
6 Er Páll hafði lagt hendur yfir þá, kom heilagur andi yfir þá, og þeir töluðu tungum og spáðu.
7 Þessir menn voru alls um tólf.
4 Þannig kom Jóhannes skírari fram í óbyggðinni og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,
5 og menn streymdu til hans frá allri Júdeubyggð og allir Jerúsalembúar og létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.
6 En Jóhannes var í klæðum úr úlfaldahári, með leðurbelti um lendar sér og át engisprettur og villihunang.
7 Hann prédikaði svo: "Sá kemur eftir mig, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður þess að krjúpa niður og leysa skóþveng hans.
8 Ég hef skírt yður með vatni, en hann mun skíra yður með heilögum anda."
9 Svo bar við á þeim dögum, að Jesús kom frá Nasaret í Galíleu og var skírður af Jóhannesi í Jórdan.
10 Um leið og hann sté upp úr vatninu, sá hann himnana ljúkast upp og andann stíga niður yfir sig eins og dúfu.
11 Og rödd kom af himnum: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."
by Icelandic Bible Society