Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
110 Davíðssálmur. Svo segir Drottinn við herra minn: "Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér."
2 Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!
3 Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.
4 Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: "Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."
5 Drottinn er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.
6 Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang.
7 Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.
22 Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsæld er betri en silfur og gull.
2 Ríkur og fátækur hittast, Drottinn skóp þá alla saman.
3 Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.
4 Laun auðmýktar, ótta Drottins, eru auður, heiður og líf.
5 Þyrnar, snörur, eru á vegi hins undirförula, sá sem varðveitir líf sitt, kemur ekki nærri þeim.
6 Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.
7 Ríkur maður drottnar yfir fátækum, og lánþeginn verður þræll lánsalans.
8 Sá sem ranglæti sáir, uppsker óhamingju, og sproti heiftar hans verður að engu.
9 Sá sem er góðgjarn, verður blessaður, því að hann gefur hinum fátæka af brauði sínu.
27 En ég segi yður, er á mig hlýðið: Elskið óvini yðar, gjörið þeim gott, sem hata yður,
28 blessið þá, sem bölva yður, og biðjið fyrir þeim, er misþyrma yður.
29 Slái þig einhver á kinnina, skaltu og bjóða hina, og taki einhver yfirhöfn þína, skaltu ekki varna honum að taka kyrtilinn líka.
30 Gef þú hverjum sem biður þig, og þann, sem tekur þitt frá þér, skaltu eigi krefja.
31 Og svo sem þér viljið, að aðrir menn gjöri við yður, svo skuluð þér og þeim gjöra.
by Icelandic Bible Society