Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 148

148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.

Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.

Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.

Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.

Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.

Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.

Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,

eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,

fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,

10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,

11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,

12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!

13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.

14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.

Jeremía 31:15-17

15 Svo segir Drottinn: Rödd heyrist í Rama, harmakvein, beiskur grátur: Rakel grætur börnin sín. Hún vill ekki huggast láta vegna barna sinna, því að þau eru eigi framar lífs.

16 Svo segir Drottinn: Halt raust þinni frá gráti og augum þínum frá tárum, því að enn er til umbun fyrir verk þitt _ segir Drottinn _: Þeir skulu hverfa heim aftur úr landi óvinanna.

17 Já, enn er von um framtíð þína _ segir Drottinn _: Börnin skulu hverfa heim aftur í átthaga sína.

Matteusarguðspjall 2:13-18

13 Þegar þeir voru farnir, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: "Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera, uns ég segi þér, því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því."

14 Hann vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands.

15 Þar dvaldist hann þangað til Heródes var allur. Það sem Drottinn sagði fyrir munn spámannsins, skyldi rætast: "Frá Egyptalandi kallaði ég son minn."

16 Þá sá Heródes, að vitringarnir höfðu gabbað hann, og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri, en það svaraði þeim tíma, er hann hafði komist að hjá vitringunum.

17 Nú rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns:

18 Rödd heyrðist í Rama, grátur og kveinstafir miklir, Rakel grætur börnin sín og vill ekki huggast láta, því að þau eru ekki framar lífs.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society