Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jesaja 61:10-62:3

10 Ég gleðst yfir Drottni, sál mín fagnar yfir Guði mínum, því að hann hefir klætt mig klæðum hjálpræðisins, hann hefir sveipað mig í skikkju réttlætisins, eins og þegar brúðgumi lætur á sig höfuðdjásn og brúður býr sig skarti sínu.

11 Því eins og jörðin lætur gróður sinn koma upp og eins og aldingarðurinn lætur frækornin upp spretta, svo mun hinn alvaldi Drottinn láta réttlæti og frægð upp spretta í augsýn allra þjóða.

62 Sökum Síonar get ég ekki þagað, og sökum Jerúsalem get ég ekki kyrr verið, uns réttlæti hennar rennur upp sem ljómi og hjálpræði hennar sem brennandi blys.

Þá skulu þjóðirnar sjá réttlæti þitt og allir konungar vegsemd þína, og þú munt nefnd verða nýju nafni, er munnur Drottins mun ákveða.

Þú munt verða prýðileg kóróna í hendi Drottins og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns.

Sálmarnir 148

148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.

Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.

Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.

Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.

Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.

Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.

Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,

eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,

fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,

10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,

11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,

12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!

13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.

14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.

Bréf Páls til Galatamanna 4:4-7

En þegar fylling tímans kom, sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli, _

til þess að hann keypti lausa þá, sem voru undir lögmáli, _ og vér fengjum barnaréttinn.

En þar eð þér eruð börn, þá hefur Guð sent anda sonar síns í hjörtu vor, sem hrópar: "Abba, faðir!"

Þú ert þá ekki framar þræll, heldur sonur. En ef þú ert sonur, þá ert þú líka erfingi að ráði Guðs.

Lúkasarguðspjall 2:22-40

22 En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse, fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, _

23 en svo er ritað í lögmáli Drottins: "Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni," _

24 og til að færa fórn eins og segir í lögmáli Drottins, "tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur."

25 Þá var í Jerúsalem maður, er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti huggunar Ísraels, og yfir honum var heilagur andi.

26 Honum hafði heilagur andi vitrað, að hann skyldi ekki dauðann sjá, fyrr en hann hefði séð Krist Drottins.

27 Hann kom að tillaðan andans í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins,

28 tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:

29 "Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér,

30 því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,

31 sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,

32 ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael."

33 Faðir hans og móðir undruðust það, er sagt var um hann.

34 En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: "Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael og til tákns, sem móti verður mælt,

35 og sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar."

36 Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hafði hún lifað sjö ár með manni sínum frá því hún var mær

37 og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum, en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi.

38 Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem.

39 Og er þau höfðu lokið öllu eftir lögmáli Drottins, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret.

40 En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society