Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 89:1-4

89 Etans-maskíl Esraíta.

Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu, kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns,

því að ég hefi sagt: Náð þín er traust að eilífu, á himninum grundvallaðir þú trúfesti þína.

Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda, unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið:

Sálmarnir 89:19-26

19 því að Drottni heyrir skjöldur vor, konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.

20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.

21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu.

22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann.

23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann,

24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta.

25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.

26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin.

Dómarabókin 13:2-24

Maður er nefndur Manóa. Hann var frá Sorea, af ætt Daníta. Kona hans var óbyrja og hafði eigi barn alið.

Engill Drottins birtist konunni og sagði við hana: "Sjá, þú ert óbyrja og hefir eigi barn alið, en þú munt þunguð verða og son ala.

Og haf nú gætur á þér, drekk hvorki vín né áfengan drykk, og et ekkert óhreint.

Því sjá, þú munt þunguð verða og ala son, og skal rakhnífur ekki koma á höfuð hans, því að sveinninn skal vera Guði helgaður allt í frá móðurlífi, og hann mun byrja að frelsa Ísrael af hendi Filista."

Þá fór konan og sagði við mann sinn á þessa leið: "Guðsmaður nokkur kom til mín, og var hann ásýndum sem engill Guðs, ægilegur mjög; en ég spurði hann ekki, hvaðan hann væri, og nafn sitt sagði hann mér ekki.

Hann sagði við mig: ,Sjá, þú munt þunguð verða og son ala. Drekk því hvorki vín né áfengan drykk, og et ekkert óhreint, því að sveinninn skal vera Guði helgaður allt í frá móðurlífi til dauðadags."`

Þá bað Manóa Drottin og sagði: "Æ, herra! Lát guðsmanninn, sem þú sendir, koma til okkar aftur, svo að hann megi kenna okkur, hvernig við eigum að fara með sveininn, sem fæðast á."

Guð heyrði bæn Manóa, og engill Guðs kom aftur til konunnar. Var hún þá stödd úti á víðavangi og maður hennar Manóa ekki hjá henni.

10 Þá hljóp konan sem skjótast og sagði manni sínum frá og mælti við hann: "Sjá, maðurinn, sem til mín kom um daginn, hefir birst mér."

11 Þá reis Manóa upp og fór á eftir konu sinni, og hann kom til mannsins og sagði við hann: "Ert þú maðurinn, sem talaði við konuna?" Hann svaraði: "Já."

12 Þá sagði Manóa: "Ef það nú kemur fram, sem þú hefir sagt, hvernig á þá að fara með sveininn, og hvað á hann að gjöra?"

13 Engill Drottins sagði við Manóa: "Konan skal forðast allt það, sem ég hefi sagt henni.

14 Hún skal ekkert það eta, er af vínviði kemur, ekki drekka vín né áfengan drykk, og ekkert óhreint eta. Hún skal gæta alls þess, er ég hefi boðið henni."

15 Þá sagði Manóa við engil Drottins: "Leyf okkur að tefja þig stundarkorn, svo að við getum matbúið handa þér hafurkið."

16 En engill Drottins sagði við Manóa: "Þó að þú fáir mig til að tefja, þá et ég samt ekki af mat þínum. En ef þú vilt tilreiða brennifórn, þá fær þú hana Drottni."

17 Því að Manóa vissi ekki, að það var engill Drottins. Þá sagði Manóa við engil Drottins: "Hvert er nafn þitt? Því að rætist orð þín, munum við tigna þig."

18 Engill Drottins svaraði honum: "Hví spyr þú um nafn mitt? Nafn mitt er undursamlegt."

19 Þá tók Manóa geithafurinn og matfórnina og færði það Drottni á kletti einum. Þá varð undur mikið að þeim Manóa og konu hans ásjáandi.

20 Því að þegar logann lagði upp af altarinu til himins, þá fór engill Drottins upp í altarisloganum. Og er þau Manóa og kona hans sáu það, féllu þau fram á ásjónur sínar til jarðar.

21 Eftir það birtist engill Drottins eigi framar Manóa og konu hans. Þá sá Manóa að það hafði verið engill Drottins.

22 Manóa sagði við konu sína: "Vissulega munum við deyja, því að við höfum séð Guð!"

23 En kona hans svaraði honum: "Ef Drottinn hefði viljað deyða okkur, þá hefði hann eigi þegið brennifórn og matfórn af okkur, né látið okkur sjá allt þetta, og þá hefði hann eigi nú látið okkur heyra slíka hluti."

24 Og konan ól son og nefndi hann Samson; og sveinninn óx upp, og Drottinn blessaði hann.

Jóhannesarguðspjall 7:40-52

40 Þá sögðu nokkrir úr mannfjöldanum, sem hlýddu á þessi orð: "Þessi er sannarlega spámaðurinn."

41 Aðrir mæltu: "Hann er Kristur." En sumir sögðu: "Mundi Kristur þá koma frá Galíleu?

42 Hefur ekki ritningin sagt, að Kristur komi af kyni Davíðs og frá Betlehem, þorpinu þar sem Davíð var?"

43 Þannig greindi menn á um hann.

44 Nokkrir þeirra vildu grípa hann, en þó lagði enginn hendur á hann.

45 Nú komu þjónarnir til æðstu prestanna og faríseanna, sem sögðu við þá: "Hvers vegna komuð þér ekki með hann?"

46 Þjónarnir svöruðu: "Aldrei hefur nokkur maður talað þannig."

47 Þá sögðu farísearnir: "Létuð þér þá einnig leiðast afvega?

48 Ætli nokkur af höfðingjunum hafi farið að trúa á hann, eða þá af faríseum?

49 Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu, hann er bölvaður!"

50 Nikódemus, sem kom til hans fyrrum og var einn af þeim, segir við þá:

51 "Mundi lögmál vort dæma mann, nema hann sé yfirheyrður áður og að því komist, hvað hann hefur aðhafst?"

52 Þeir svöruðu honum: "Ert þú nú líka frá Galíleu? Gáðu að og sjáðu, að enginn spámaður kemur úr Galíleu."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society