Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
27 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?
2 Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla.
3 Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur.
4 Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.
5 Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett.
6 Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni.
7 Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!
8 Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
9 Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.
10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.
12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.
13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!
14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.
10 Eigum vér ekki allir hinn sama föður? Hefir ekki einn Guð skapað oss? Hvers vegna breytum vér þá sviksamlega hver við annan og vanhelgum sáttmála feðra vorra?
11 Júda hefir gjörst trúrofi og svívirðingar viðgangast í Ísrael og í Jerúsalem, því að Júda hefir vanhelgað helgidóm Drottins, sem hann elskar, og gengið að eiga þær konur, sem trúa á útlenda guði.
12 Drottinn afmái fyrir þeim manni, er slíkt gjörir, kæranda og verjanda úr tjöldum Jakobs og þann er framber fórnargjafir fyrir Drottin allsherjar.
13 Í öðru lagi gjörið þér þetta: Þér hyljið altari Drottins með tárum, með gráti og andvörpunum, þar sem eigi getur framar komið til mála, að hann líti vingjarnlega á fórnirnar né taki á móti velþóknanlegum gjöfum af yðar hendi.
14 Þér segið: "Hvers vegna?" _ Af því að Drottinn var vottur að sáttmálsgjörðinni milli þín og konu æsku þinnar, er þú hefir nú brugðið trúnaði við, enda þótt hún væri förunautur þinn og eiginkona þín eftir gjörðu sáttmáli.
15 Hefir ekki einn og hinn sami gefið oss lífið og viðhaldið því? Og hvað heimtar sá hinn eini? Börn sem heyra Guði til. Gætið yðar því í huga yðar, og bregð eigi trúnaði við eiginkonu æsku þinnar.
16 Því að ég hata hjónaskilnað _ segir Drottinn, Ísraels Guð, _ og þann sem hylur klæði sín glæpum _ segir Drottinn allsherjar. Gætið yðar því í huga yðar og bregðið aldrei trúnaði.
17 Þér hafið mætt Drottin með orðum yðar og þér segið: "Með hverju mæðum vér hann?" Með því, að þér segið: "Sérhver sem illt gjörir, er góður í augum Drottins, og um slíka þykir honum vænt," eða: "Hvar er sá Guð, sem dæmir?"
3 Sjá, ég sendi sendiboða minn, og hann mun greiða veginn fyrir mér. Og bráðlega mun hann koma til musteris síns, sá Drottinn er þér leitið, og engill sáttmálans, sá er þér þráið. Sjá, hann kemur _ segir Drottinn allsherjar.
5 Á dögum Heródesar, konungs í Júdeu, var uppi prestur nokkur að nafni Sakaría, af sveit Abía. Kona hans var og af ætt Arons og hét Elísabet.
6 Þau voru bæði réttlát fyrir Guði og lifðu vammlaus eftir öllum boðum og ákvæðum Drottins.
7 En þau áttu ekki barn, því að Elísabet var óbyrja, og bæði voru þau hnigin að aldri.
8 En svo bar við, er röðin kom að sveit hans og hann var að gegna þjónustu fyrir Guði,
9 að það féll í hans hlut, samkvæmt venju prestdómsins, að ganga inn í musteri Drottins og fórna reykelsi.
10 En allur fólksfjöldinn var fyrir utan á bæn, meðan reykelsisfórnin var færð.
11 Birtist honum þá engill Drottins, sem stóð hægra megin við reykelsisaltarið.
12 Sakaría varð hverft við sýn þessa, og ótta sló á hann.
13 En engillinn sagði við hann: "Óttast þú eigi, Sakaría, því bæn þín er heyrð. Elísabet kona þín mun fæða þér son, og þú skalt láta hann heita Jóhannes.
14 Og þér mun veitast gleði og fögnuður, og margir munu gleðjast vegna fæðingar hans.
15 Því að hann mun verða mikill í augliti Drottins. Aldrei mun hann drekka vín né áfengan drykk, en fyllast heilögum anda þegar frá móðurlífi.
16 Og mörgum af Ísraels sonum mun hann snúa til Drottins, Guðs þeirra.
17 Og hann mun ganga fyrir honum í anda og krafti Elía til að snúa hjörtum feðra til barna og óhlýðnum til hugarfars réttlátra og búa Drottni altygjaðan lýð."
by Icelandic Bible Society