Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.
2 Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.
3 Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.
4 Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
5 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?
6 Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.
7 Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.
8 Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.
9 Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.
10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?" Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.
11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,
12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.
13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.
6 Á þeim degi _ segir Drottinn _ vil ég saman safna því halta og smala saman því tvístraða og þeim er ég hefi tjón unnið,
7 og ég vil gjöra hið halta að nýjum kynstofni og hið burtflæmda að voldugri þjóð. Og Drottinn sjálfur mun verða konungur yfir þeim á Síonfjalli héðan í frá og að eilífu.
8 En þú, varðturn hjarðmannsins, hæð dótturinnar Síon, til þín mun koma og aftur til þín hverfa hið forna veldi, konungdómur dótturinnar Jerúsalem.
9 Nú, hví hljóðar þú svo hástöfum? Hefir þú engan konung, eða er ráðgjafi þinn horfinn, úr því að kvalir grípa þig eins og jóðsjúka konu?
10 Fá þú hríðir og hljóða þú, dóttirin Síon, eins og jóðsjúk kona. Því að nú verður þú að fara út úr borginni og búa á víðavangi og fara alla leið til Babýlon. Þar munt þú frelsuð verða, þar mun Drottinn leysa þig undan valdi óvina þinna.
11 En nú hafa margar þjóðir safnast í móti þér, þær er segja: "Verði hún vanhelguð, svo að vér megum horfa hlakkandi á Síon!"
12 En þær þekkja ekki hugsanir Drottins og skilja ekki ráðsályktun hans, að hann hefir safnað þeim saman eins og kerfum á kornláfa.
13 Rís upp og þresk, dóttirin Síon, því að ég gjöri þér horn af járni og klaufir af eiri, svo að þú skalt sundur merja margar þjóðir. Og þú munt helga Drottni ránsfeng þeirra og fjárafla þeirra honum, sem er Drottinn allrar jarðarinnar.
18 Eftir þetta sá ég annan engil stíga ofan af himni, og hafði hann mikið vald og jörðin ljómaði af dýrð hans.
2 Og hann hrópaði með sterkri röddu og sagði: "Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla og orðin að djöfla heimkynni og fangelsi alls konar óhreinna anda og fangelsi alls konar óhreinna og viðbjóðslegra fugla.
3 Því að hún hefur byrlað öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns, og konungar jarðarinnar drýgðu saurlifnað með henni og kaupmenn jarðarinnar auðguðust af gnóttum munaðar hennar."
4 Og ég heyrði aðra rödd af himni, sem sagði: "Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.
5 Því að syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar.
6 Gjaldið henni eins og hún hefur goldið og tvígjaldið henni eftir verkum hennar, byrlið henni tvöfalt í bikarinn, sem hún hefur byrlað.
7 Veitið henni eins mikla kvöl og sorg og hennar stærilæti og óhóf hefur verið. Hún segir í hjarta sínu: ,Hér sit ég og er drottning, ekkja er ég eigi, sorg mun ég aldrei sjá.`
8 Fyrir því munu plágur hennar koma á einum degi: Dauði, sorg og hungur, og í eldi mun hún verða brennd, því að máttugur er Drottinn Guð, sem hana dæmdi."
9 Og konungar jarðarinnar, sem með henni drýgðu saurlifnað og lifðu í munaði, munu gráta og kveina yfir henni er þeir sjá reykinn af brennu hennar.
10 Af ótta fyrir kvöl hennar munu þeir standa langt frá og segja: "Vei, vei, borgin mikla, Babýlon, borgin volduga, á einni stundu kom dómur þinn."
by Icelandic Bible Society