Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 79

79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.

Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.

Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.

Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?

Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.

Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.

Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.

Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.

10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?" Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.

11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,

12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.

13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.

Míka 4:1-5

Og það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu lýðirnir streyma.

Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: "Komið, förum upp á fjall Drottins og til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum." Því að frá Síon mun kenning út ganga og orð Drottins frá Jerúsalem.

Og hann mun dæma meðal margra lýða og skera úr málum voldugra þjóða langt í burtu. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.

Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá. Því að munnur Drottins allsherjar hefir talað það.

Því að allar þjóðirnar ganga hver í nafni síns guðs, en vér göngum í nafni Drottins, Guðs vors, æ og ævinlega.

Opinberun Jóhannesar 15

15 Og ég sá annað tákn á himni, mikið og undursamlegt: Sjö engla, sem höfðu sjö síðustu plágurnar, því að með þeim fullnaðist reiði Guðs.

Og ég leit sem glerhaf eldi blandið, og ég sá þá, sem unnið höfðu sigur á dýrinu og líkneski þess og á tölu nafns þess, standa við glerhafið og halda á hörpum Guðs.

Og þeir syngja söng Móse, Guðs þjóns, og söng lambsins og segja: Mikil og dásamleg eru verkin þín, Drottinn Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna.

Hver skyldi ekki óttast, Drottinn, og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.

Og eftir þetta sá ég, að upp var lokið musterinu á himni, tjaldbúð vitnisburðarins.

Og út gengu úr musterinu englarnir sjö, sem höfðu plágurnar sjö, klæddir hreinu, skínandi líni og gyrtir gullbeltum um brjóst.

Og englunum sjö fékk ein af verunum fjórum sjö gullskálar, fullar reiði Guðs, hans sem lifir um aldir alda.

Og musterið fylltist af reyknum af dýrð Guðs og mætti hans, og enginn mátti inn ganga í musterið, uns fullnaðar væru þær sjö plágur englanna sjö.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society