Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.
2 Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.
3 Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.
4 Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.
5 Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.
6 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.
7 Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.
8 Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.
9 Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.
10 Heyrið orð Drottins, þér þjóðir, og kunngjörið það á fjarlægu eyjunum og segið: Sá, sem tvístraði Ísrael, safnar honum saman og mun gæta hans, eins og hirðir gætir hjarðar sinnar.
11 Drottinn frelsar Jakob og leysir hann undan valdi þess, sem honum var yfirsterkari.
12 Þeir skulu koma og fagna á Síonhæð og streyma til gæða Drottins, til kornsins, vínberjalagarins, olíunnar og ungu sauðanna og nautanna, og sál þeirra skal verða eins og vökvaður aldingarður, og þeir skulu eigi framar vanmegnast.
13 Þá munu meyjarnar skemmta sér við dans og unglingar og gamalmenni gleðjast saman. Ég mun breyta sorg þeirra í gleði og hugga þá og gleðja eftir harma þeirra.
14 Og ég mun endurnæra sál prestanna á feiti, og lýður minn mun seðja sig á gæðum mínum _ segir Drottinn.
19 Þessu svaraði Jesús og sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig.
20 Faðirinn elskar soninn og sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur. Hann mun sýna honum meiri verk en þessi, svo að þér verðið furðu lostnir.
21 Eins og faðirinn vekur upp dauða og lífgar, þannig lífgar og sonurinn þá, sem hann vill.
22 Enda dæmir faðirinn engan, heldur hefur hann falið syninum allan dóm,
23 svo að allir heiðri soninn eins og þeir heiðra föðurinn. Sá sem heiðrar ekki soninn, heiðrar ekki föðurinn, sem sendi hann.
24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.
25 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin, að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins, og þeir, sem heyra, munu lifa.
26 Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér.
27 Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm, því að hann er Mannssonur.
28 Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans
29 og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.
30 Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.
31 Ef ég vitna sjálfur um mig, er vitnisburður minn ekki gildur.
32 Annar er sá sem vitnar um mig, og ég veit, að sá vitnisburður er sannur, sem hann ber mér.
33 Þér hafið sent til Jóhannesar. Hann bar sannleikanum vitni.
34 Ekki þarf ég vitnisburð manns, en ég segi þetta til þess, að þér megið frelsast.
35 Hann var logandi og skínandi lampi. Þér vilduð um stund gleðjast við ljós hans.
36 Ég hef þann vitnisburð, sem er meiri en Jóhannesar, því verkin, sem faðir minn fékk mér að fullna, verkin, sem ég vinn, bera mér það vitni, að faðirinn hefur sent mig.
37 Faðirinn, sem sendi mig, hann hefur sjálfur vitnað um mig. Þér hafið aldrei heyrt rödd hans né séð ásýnd hans.
38 Og orð hans býr ekki í yður, því að þér trúið ekki þeim, sem hann sendi.
39 Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig,
40 en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.
by Icelandic Bible Society