Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!
2 Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!
3 Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.
4 Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.
5 Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.
40 Huggið, huggið lýð minn! segir Guð yðar.
2 Hughreystið Jerúsalem og boðið henni, að áþján hennar sé á enda, að sekt hennar sé goldin, að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins fyrir allar syndir sínar!
3 Heyr, kallað er: "Greiðið götu Drottins í eyðimörkinni, ryðjið Guði vorum veg í óbyggðinni!
4 Sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólarnir skulu verða að jafnsléttu og hamrarnir að dalagrundum!
5 Dýrð Drottins mun birtast, og allt hold mun sjá það, því að munnur Drottins hefir talað það!"
6 Heyr, einhver segir: "Kalla þú!" Og ég svara: "Hvað skal ég kalla?" "Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.
7 Grasið visnar, blómin fölna, þegar Drottinn andar á þau. Sannlega, mennirnir eru gras.
8 Grasið visnar, blómin fölna, en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega."
9 Stíg upp á hátt fjall, þú Síon fagnaðarboði! Hef upp raust þína kröftuglega, þú Jerúsalem fagnaðarboði! Hef upp raustina, óttast eigi, seg borgunum í Júda: "Sjá, Guð yðar kemur!"
10 Sjá, hinn alvaldi Drottinn kemur sem hetja, og armleggur hans aflar honum yfirráða. Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum.
11 Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar.
22 Og hann sýndi mér móðu lífsvatnsins, skínandi sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins.
2 Á miðju stræti borgarinnar, beggja vegna móðunnar, var lífsins tré, sem ber tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum gefur það ávöxt sinn, og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.
3 Og engin bölvun mun framar til vera. Og hásæti Guðs og lambsins mun í borginni vera og þjónar hans munu honum þjóna.
4 Þeir munu sjá ásjónu hans og nafn hans mun vera á ennum þeirra.
5 Og nótt mun ekki framar til vera og þeir þurfa ekki lampaljós né sólarljós, því að Drottinn Guð skín á þá og þeir munu ríkja um aldir alda.
6 Og hann sagði við mig: "Þessi orð eru trú og sönn. Og Drottinn, Guð anda spámannanna, sendi engil sinn til að sýna þjónum sínum það, sem verða á innan skamms.
7 Sjá, ég kem skjótt. Sæll er sá, sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar."
8 Og ég, Jóhannes, er sá sem heyrði og sá þetta. Og er ég hafði heyrt það og séð, féll ég niður til að tilbiðja fyrir fótum engilsins, sem sýndi mér þetta.
9 Og hann segir við mig: "Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, spámannanna, og þeirra, sem varðveita orð þessarar bókar. Tilbið þú Guð."
by Icelandic Bible Society