Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 100

100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!

Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!

Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.

Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.

Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.

Fyrsta bók Móse 48:15-22

15 Og hann blessaði Jósef og sagði: "Sá Guð, fyrir hvers augliti feður mínir Abraham og Ísak gengu, sá Guð, sem hefir varðveitt mig frá barnæsku allt fram á þennan dag,

16 sá engill, sem hefir frelsað mig frá öllu illu, hann blessi sveinana, og þeir beri nafn mitt og nafn feðra minna Abrahams og Ísaks, og afsprengi þeirra verði stórmikið í landinu."

17 En er Jósef sá, að faðir hans lagði hægri hönd sína á höfuð Efraím, mislíkaði honum það og tók um höndina á föður sínum til þess að færa hana af höfði Efraíms yfir á höfuð Manasse.

18 Og Jósef sagði við föður sinn: "Eigi svo, faðir minn, því að þessi er hinn frumgetni. Legg hægri hönd þína á höfuð honum."

19 En faðir hans færðist undan því og sagði: "Ég veit það, sonur minn, ég veit það. Einnig hann mun verða að þjóð og einnig hann mun mikill verða, en þó mun yngri bróðir hans verða honum meiri, og afsprengi hans mun verða fjöldi þjóða."

20 Og hann blessaði þá á þessum degi og mælti: "Með þínu nafni munu Ísraelsmenn óska blessunar og segja: ,Guð gjöri þig sem Efraím og Manasse!"` Hann setti þannig Efraím framar Manasse.

21 Og Ísrael sagði við Jósef: "Sjá, nú dey ég, en Guð mun vera með yður og flytja yður aftur í land feðra yðar.

22 En ég gef þér fram yfir bræður þína eina fjallsöxl, sem ég hefi unnið frá Amorítum með sverði mínu og boga."

Opinberun Jóhannesar 14:1-11

14 Enn sá ég sýn: Lambið stóð á Síonfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á ennum sér.

Og ég heyrði rödd af himni sem nið margra vatna og sem gný mikillar þrumu, og röddin, sem ég heyrði, var eins og hörpuhljómur hörpuleikara, sem slá hörpur sínar.

Og þeir syngja nýjan söng frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir verunum fjórum og öldungunum. Og enginn gat numið sönginn nema þær hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, þeir sem út eru leystir frá jörðunni.

Þetta eru þeir, sem ekki hafa saurgast með konum, því að þeir eru sem meyjar. Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer. Þeir voru leystir út úr hóp mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu.

Og í munni þeirra var enga lygi að finna, þeir eru lýtalausir.

Og ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð,

og sagði hárri röddu: "Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna."

Og enn annar engill kom á eftir og sagði: "Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla, sem byrlað hefur öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns."

Á eftir þeim kom hinn þriðji engill og sagði hárri röddu: "Ef einhver tilbiður dýrið og líkneski þess og fær merki á enni sitt eða hönd sína,

10 þá skal sá hinn sami drekka af reiði-víni Guðs, sem byrlað er óblandað í reiðibikar hans, og hann mun kvalinn verða í eldi og brennisteini í augsýn heilagra engla og í augsýn lambsins.

11 Og reykurinn frá kvalastað þeirra stígur upp um aldir alda, og eigi hafa þeir hvíld dag eða nótt, þeir sem dýrið tilbiðja og líkneski þess, hver sá sem ber merki nafns þess."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society