Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
4 Þegar Ehúð var dáinn, gjörðu Ísraelsmenn enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins.
2 Og Drottinn seldi þá í hendur Jabín, Kanaans konungi, sem hafði aðsetur í Hasór. Hershöfðingi hans hét Sísera og bjó hann í Haróset Hagojím.
3 Og Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins, því að hann átti níu hundruð járnvagna og hafði kúgað Ísraelsmenn harðlega í tuttugu ár.
4 Kona hét Debóra. Hún var spákona og eiginkona manns þess, er Lapídót hét. Hún var dómari í Ísrael um þessar mundir.
5 Hún sat undir Debórupálma milli Rama og Betel á Efraímfjöllum, og Ísraelsmenn fóru þangað upp til hennar, að hún legði dóm á mál þeirra.
6 Hún sendi boð og lét kalla til sín Barak Abínóamsson frá Kedes í Naftalí og sagði við hann: "Sannlega hefir Drottinn, Ísraels Guð, boðið svo: ,Far þú og hald til Taborfjalls og haf með þér tíu þúsundir manna af Naftalí sonum og Sebúlons sonum.
7 Og ég mun leiða Sísera, hershöfðingja Jabíns, með vögnum hans og liði til þín að Kísonlæk, og ég mun gefa hann í hendur þínar."`
123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.
2 Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.
3 Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.
4 Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.
5 En um tíma og tíðir hafið þér, bræður, ekki þörf á að yður sé skrifað.
2 Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur Drottins kemur sem þjófur á nóttu.
3 Þegar menn segja: "Friður og engin hætta", þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.
4 En þér, bræður, eruð ekki í myrkri, svo að dagurinn geti komið yfir yður sem þjófur.
5 Þér eruð allir synir ljóssins og synir dagsins. Vér heyrum ekki nóttunni til né myrkrinu.
6 Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir.
7 Þeir, sem sofa, sofa á nóttunni og þeir, sem drekka sig drukkna, drekka á nóttunni.
8 En vér, sem heyrum deginum til, skulum vera algáðir, klæddir brynju trúar og kærleika og von hjálpræðis sem hjálmi.
9 Guð hefur ekki ætlað oss til að verða reiðinni að bráð, heldur til að öðlast sáluhjálp fyrir Drottin vorn Jesú Krist,
10 sem dó fyrir oss, til þess að vér mættum lifa með honum, hvort sem vér vökum eða sofum.
11 Áminnið því hver annan og uppbyggið hver annan, eins og þér og gjörið.
14 Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar.
15 Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi.
16 Sá sem fékk fimm talentur, fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm.
17 Eins gjörði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær.
18 En sá sem fékk eina, fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.
19 Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil.
20 Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: ,Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm.`
21 Húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.`
22 Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: ,Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær.`
23 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.`
24 Loks kom sá er fékk eina talentu, og sagði: ,Herra, ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki.
25 Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.`
26 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Illi og lati þjónn, þú vissir, að ég uppsker þar, sem ég sáði ekki, og safna þar, sem ég stráði ekki.
27 Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum, þegar ég kom heim.
28 Takið af honum talentuna, og fáið þeim, sem hefur tíu talenturnar.
29 Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.
30 Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.`
by Icelandic Bible Society