Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 123

123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.

Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.

Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.

Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.

Dómarabókin 2:16-23

16 En Drottinn vakti upp dómara, og þeir frelsuðu þá úr höndum þeirra, er þá rændu.

17 En þeir hlýddu ekki heldur dómurum sínum, heldur tóku fram hjá með öðrum guðum og féllu fram fyrir þeim. Þeir viku brátt af vegi feðra sinna, sem hlýddu boðum Drottins; þeir breyttu ekki svo.

18 Þegar Drottinn vakti þeim upp dómara, þá var Drottinn með dómaranum og frelsaði þá úr höndum óvina þeirra á meðan dómarinn var á lífi, því að Drottinn kenndi í brjósti um þá, er þeir kveinuðu undan kúgurum sínum og kvölurum.

19 En er dómarinn andaðist, breyttu þeir að nýju verr en feður þeirra, með því að elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim. Þeir létu eigi af gjörðum sínum né þrjóskubreytni sinni.

20 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael og hann sagði: "Af því að þetta fólk hefir rofið sáttmála minn, þann er ég lagði fyrir feður þeirra, og ekki hlýtt minni raustu,

21 þá mun ég ekki heldur framar stökkva burt undan þeim nokkrum manni af þjóðum þeim, sem Jósúa skildi eftir, er hann andaðist.

22 Ég vil reyna Ísrael með þeim, hvort þeir varðveita veg Drottins og ganga hann, eins og feður þeirra gjörðu, eða ekki."

23 Þannig lét Drottinn þjóðir þessar vera kyrrar án þess að reka þær burt bráðlega, og hann gaf þær eigi í hendur Jósúa.

Opinberun Jóhannesar 16:8-21

Og hinn fjórði hellti úr sinni skál yfir sólina. Og sólinni var gefið vald til að brenna mennina í eldi.

Og mennirnir stiknuðu í ofurhita og lastmæltu nafni Guðs, sem valdið hefur yfir plágum þessum. Og ekki gjörðu þeir iðrun, svo að þeir gæfu honum dýrðina.

10 Og hinn fimmti hellti úr sinni skál yfir hásæti dýrsins. Og ríki þess myrkvaðist, og menn bitu í tungur sínar af kvöl.

11 Og menn lastmæltu Guði himinsins fyrir kvalirnar og fyrir kaun sín og eigi gjörðu þeir iðrun og létu af verkum sínum.

12 Og hinn sjötti hellti úr sinni skál yfir fljótið mikla, Efrat. Og vatnið í því þornaði upp, svo að vegur yrði búinn fyrir konungana, þá er koma úr austri.

13 Og ég sá koma út af munni drekans og munni dýrsins og munni falsspámannsins þrjá óhreina anda, sem froskar væru,

14 því að þeir eru djöfla andar, sem gjöra tákn. Þeir ganga út til konunga allrar heimsbyggðarinnar til að safna þeim saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.

15 "Sjá, ég kem eins og þjófur. Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín, til þess að hann gangi ekki nakinn um og menn sjái blygðun hans."

16 Og þeir söfnuðu þeim saman á þann stað, sem á hebresku kallast Harmagedón.

17 Og hinn sjöundi hellti úr sinni skál yfir loftið og raust mikil kom út úr musterinu, frá hásætinu og sagði: "Það er fram komið."

18 Og eldingar komu og brestir og þrumur og mikill landskjálfti, svo að slíkur hefur eigi komið frá því menn urðu til á jörðunni. Svo mikill var sá jarðskjálfti.

19 Og borgin mikla fór í þrjá hluta, og borgir þjóðanna hrundu. Og Guð gleymdi ekki hinni miklu Babýlon og gaf henni vínbikar heiftarreiði sinnar.

20 Og allar eyjar hurfu og fjöllin voru ekki lengur til.

21 Og stór högl, vættarþung, féllu niður af himni yfir mennina. Og mennirnir lastmæltu Guði fyrir haglpláguna, því að sú plága var mikil.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society