Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
24 Jósúa stefndi saman öllum ættkvíslum Ísraels í Síkem og kallaði fyrir sig öldunga Ísraels og höfðingja hans, dómendur hans og tilsjónarmenn, og þeir gengu fram fyrir auglit Guðs.
2 Þá mælti Jósúa við allan lýðinn: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Forfeður yðar bjuggu í fyrndinni fyrir handan Efrat, þeir Tara, faðir Abrahams og Nahors, og dýrkuðu aðra guði.
3 Þá tók ég Abraham forföður yðar handan yfir Fljótið og lét hann fara fram og aftur um allt Kanaanland, og ég margfaldaði kyn hans og gaf honum Ísak.
14 Óttist því Drottin og þjónið honum einlæglega og dyggilega, og kastið burt guðum þeim, er feður yðar þjónuðu fyrir handan Fljótið og í Egyptalandi, og þjónið Drottni.
15 En líki yður ekki að þjóna Drottni, kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna, hvort heldur guðum þeim, er feður yðar þjónuðu, þeir er bjuggu fyrir handan Fljótið, eða guðum Amoríta, hverra land þér nú byggið. En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni."
16 Þá svaraði lýðurinn og sagði: "Fjarri sé það oss að yfirgefa Drottin og þjóna öðrum guðum.
17 Því að Drottinn er vor Guð, hann sem leitt hefir oss og feður vora af Egyptalandi, úr þrælahúsinu, og gjört hefir þessi miklu undur að oss ásjáandi og varðveitt oss á allri þeirri leið, sem vér höfum nú farið, og meðal allra þeirra þjóða, þar sem vér höfum lagt um leið vora.
18 Og Drottinn stökkti burt undan oss öllum þjóðunum og Amorítum, íbúum landsins. Vér viljum einnig þjóna Drottni, því að hann er vor Guð!"
19 Jósúa sagði þá við lýðinn: "Þér getið ekki þjónað Drottni, því að hann er heilagur Guð. Vandlátur Guð er hann. Hann mun ekki umbera misgjörðir yðar og syndir.
20 Ef þér yfirgefið Drottin og þjónið útlendum guðum, þá mun hann snúast gegn yður og láta illt yfir yður koma og tortíma yður, í stað þess að hann áður hefir gjört vel til yðar."
21 Þá sagði lýðurinn við Jósúa: "Nei, því að Drottni viljum vér þjóna."
22 Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Þér eruð vottar að því gegn sjálfum yður, að þér hafið kosið að þjóna Drottni." Þeir sögðu: "Vér erum það."
23 Jósúa sagði: "Kastið nú burt útlendu guðunum, sem hjá yður eru, og hneigið hjörtu yðar til Drottins, Ísraels Guðs."
24 Lýðurinn sagði við Jósúa: "Drottni Guði vorum viljum vér þjóna og hlýða hans röddu."
25 Á þeim degi gjörði Jósúa sáttmála við lýðinn og setti honum lög og rétt þar í Síkem.
78 Asafs-maskíl. Hlýð þú, lýður minn, á kenning mína, hneigið eyrun að orðum munns míns.
2 Ég vil opna munn minn með orðskviði, mæla fram gátur frá fornum tíðum.
3 Það sem vér höfum heyrt og skilið og feður vorir sögðu oss,
4 það viljum vér eigi dylja fyrir niðjum þeirra, er vér segjum seinni kynslóð frá lofstír Drottins og mætti hans og dásemdarverkum og þeim undrum er hann gjörði.
5 Hann setti reglu í Jakob og skipaði lögmál í Ísrael, sem hann bauð feðrum vorum að kunngjöra sonum þeirra,
6 til þess að seinni kynslóð mætti skilja það og synir þeir er fæðast mundu, mættu ganga fram og segja sonum sínum frá því,
7 og setja traust sitt á Guð og eigi gleyma stórvirkjum Guðs, heldur varðveita boðorð hans,
13 Ekki viljum vér, bræður, láta yður vera ókunnugt um þá, sem sofnaðir eru, til þess að þér séuð ekki hryggir eins og hinir, sem ekki hafa von.
14 Því að ef vér trúum því að Jesús sé dáinn og upprisinn, þá mun Guð fyrir Jesú leiða ásamt honum fram þá, sem sofnaðir eru.
15 Því að það segjum vér yður, og það er orð Drottins, að vér, sem verðum eftir á lífi við komu Drottins, munum alls ekki fyrri verða en hinir sofnuðu.
16 Því að sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðengils raust og með básúnu Guðs, og þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa.
17 Síðan munum vér, sem eftir lifum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum vér vera með Drottni alla tíma.
18 Uppörvið því hver annan með þessum orðum.
25 Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína.
2 Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar.
3 Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér,
4 en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum.
5 Nú dvaldist brúðgumanum, og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.
6 Um miðnætti kvað við hróp: ,Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann.`
7 Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína.
8 En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: ,Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum.`
9 Þær hyggnu svöruðu: ,Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.`
10 Meðan þær voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað.
11 Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: ,Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.`
12 En hann svaraði: ,Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.`
13 Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.
by Icelandic Bible Society