Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
78 Asafs-maskíl. Hlýð þú, lýður minn, á kenning mína, hneigið eyrun að orðum munns míns.
2 Ég vil opna munn minn með orðskviði, mæla fram gátur frá fornum tíðum.
3 Það sem vér höfum heyrt og skilið og feður vorir sögðu oss,
4 það viljum vér eigi dylja fyrir niðjum þeirra, er vér segjum seinni kynslóð frá lofstír Drottins og mætti hans og dásemdarverkum og þeim undrum er hann gjörði.
5 Hann setti reglu í Jakob og skipaði lögmál í Ísrael, sem hann bauð feðrum vorum að kunngjöra sonum þeirra,
6 til þess að seinni kynslóð mætti skilja það og synir þeir er fæðast mundu, mættu ganga fram og segja sonum sínum frá því,
7 og setja traust sitt á Guð og eigi gleyma stórvirkjum Guðs, heldur varðveita boðorð hans,
20 Drottinn talaði við Jósúa á þessa leið:
2 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Takið nú til griðastaðina, þá er ég hefi talað um við yður fyrir Móse,
3 að þangað megi flýja vegandi, sá er af vangá, óviljandi, hefir orðið manni að bana, svo að þeir séu yður hæli fyrir hefnanda.
4 Hann má flýja í einhverja af borgum þessum og nema staðar rétt fyrir utan borgarhliðið og skýra þar frá máli sínu í áheyrn öldunga borgar þeirrar. Skulu þeir taka við honum inn í borgina og fá honum stað, svo að hann megi búa hjá þeim.
5 Og ef hefnandinn eltir hann, þá skulu þeir eigi framselja vegandann í hendur honum, þar eð hann óviljandi hefir orðið náunga sínum að bana og eigi verið óvinur hans áður.
6 Og hann skal hafa aðsetur í borg þeirri, þar til er hann hefir komið fyrir dóm safnaðarins, þar til sá æðsti prestur er dáinn, sem þá er. Þá má vegandinn hverfa aftur og fara heim til sinnar borgar og síns húss, þeirrar borgar, er hann flýði úr."
7 Þá helguðu þeir Kedes í Galíleu á Naftalífjöllum, Síkem á Efraímfjöllum og Kirjat Arba, það er Hebron, á Júdafjöllum.
8 En hinumegin Jórdanar, gegnt Jeríkó að austanverðu, létu þeir af hendi Beser í eyðimörkinni, á sléttlendinu, af kynkvísl Rúbens, Ramót í Gíleað af kynkvísl Gaðs og Gólan í Basan af kynkvísl Manasse.
9 Þetta voru borgirnar, sem tilteknar voru handa öllum Ísraelsmönnum og útlendingum þeim, er meðal þeirra dvöldust, að þangað mætti flýja hver sá maður, sem óviljandi hefði orðið manni að bana, svo að hann þyrfti ekki að deyja fyrir hendi hefnandans, þar til er hann hefði staðið fyrir máli sínu frammi fyrir söfnuðinum.
24 Jesús gekk út úr helgidóminum og hélt brott. Þá komu lærisveinar hans og vildu sýna honum byggingar helgidómsins.
2 Hann sagði við þá: "Þér sjáið allt þetta? Sannlega segi ég yður, hér mun ekki eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."
3 Þá er hann sat á Olíufjallinu, gengu lærisveinarnir til hans og spurðu hann einslega: "Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?"
4 Jesús svaraði þeim: "Varist að láta nokkurn leiða yður í villu.
5 Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Ég er Kristur!` og marga munu þeir leiða í villu.
6 Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess, að skelfast ekki. Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn.
7 Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.
8 Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.
9 Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.
10 Margir munu þá falla frá og framselja hver annan og hata.
11 Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu.
12 Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.
13 En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.
14 Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.
by Icelandic Bible Society